spot_img
HomeLandsliðinEuroBasket 2023Svakalega erfiður leikur gegn góðu liði - Ísland tapaði gegn Ungverjalandi

Svakalega erfiður leikur gegn góðu liði – Ísland tapaði gegn Ungverjalandi

Íslenska kvennalandsliðið tók á móti Ungverjalandi í Ólafssal í Hafnarfirði í kvöld. Leikurinn var annar leikur liðsins í undankeppni EuroBasket 2023, en þeim fyrsta tapaði Ísland fyrir Rúmeníu í Búkarest síðastliðinn fimmtudag, 65-59. Ísland er ásamt Ungverjalandi og Rúmeníu með Spáni í riðli C.

Hérna er heimasíða mótsins

Íslenski landsliðshópurinn í kvöld gegn Ungverjum

Fyrir leikinn var ljóst að Ungverjar voru sterkara liðið en samkvæmt heimslista FIBA er Ungverjaland 28. besta landslið í heiminum og númer 19 í Evrópu. Ísland er öllu neðar, númer 67 í heiminum og 37 í Evrópu. Það sást í leiknum, enda var íslenska liðið á hælunum mest allan leikinn. Hann tapaðist að lokum 58-115.

Gangur leiksins

Ungverska landsliðið átti fyrstu körfu leiksins en Dagbjört Dögg opnaði fyrir stigaskorið hjá íslenska liðinu strax í næstu sókn. Liðin skiptust aðeins á körfum á fyrstu mínútunni en síðan fór að skilja á milli.

Bernadett Hatar, 208 cm hái miðherji Ungverjalands.

Bakverðir Ungverja létu ekki íslensku bakverðina í friði og Ísland átti oft í basli með að hefja sóknirnar sínar. Á hinum enda vallarins var miðherji Ungverja, hin 208 cm háa Bernadett Hatar, til vandræða framan af og íslenska liðið eyddi miklu púðri í að dekka hana. Það opnaði líka fyrir skyttur Ungverjalands.

Þristarnir voru mikilvægir framan af enda settu Ungverjar 4 af 6 í þristum í fyrsta leikhlutanum á meðan að þær íslensku gátu ekki sett nema 3 þrista og allir voru þeir í boði Lovísu Henningsdóttur. Skotnýting Íslands var ekki góð á heildina en stigamunurinn var þó ekki nema átta stig eftir 10 mínútur spilaðar. Staðan 20-28, Ungverjum í vil.

Stærðarmunurinn á milli Þóru Kristínar og Hatar nokkuð ljós

Skotsýning gestanna hélt áfram í næsta leikhluta og áfram gekk illa hjá Íslandi að koma sókninni í gang. Mikil pressa frá vörn Ungverjalands varð til þess að töpuðu boltarnir fóru að hrúgast upp (13 slíkir í fyrri hálfleik hjá Íslandi). Ungverjar rúlluðu vel á sínum leikmönnum og munurinn milli liðanna blés upp í 20 stig.

Íslendingar virtust koðna aðeins í lok fyrri hálfleiksins og gerðu mörg mistök sem komast hefði mátt hjá. Hallveig Jónsdóttir bætti aðeins skap áhorfenda með flautuþristi til að loka hálfleiknum. Staðan í hálfleik var því 37-59 fyrir gestunum.

Vonir stóðu til að Ísland færi í gang í seinni hálfleik en það varð ekki af því fyrstu mínuturnar. Eftir þrjár mínútur spilaðar höfðu Ungverjar skorað 10 stig gegn engu hjá Íslandi og Benedikt Guðmundsson, þjálfari íslenska landsliðsins, tók leikhlé.

Anna Ingunn setti nokkur vel valin skot í leiknum

Áfram héldu þær íslensku að berjast en lítið var að ganga upp gegn sterku liði Ungverjalands. Anna Ingunn Svansdóttir átti fína innkomu og setti m.a. þrjá þrista. Það breytti því hins vegar ekki að Ísland tapaði þriðja leikhlutanum 13-25 og staðan því 50-84 fyrir lokafjórðunginn.

Lítið breyttist í fjórða leikhlutanum og Ungverjar voru komnir upp í 100 stig þegar tæpar 4 mínútur lifðu leiks. Skömmu seinna tók Benedikt Guðmundsson leikhlé og skipti nokkrum reynsluminni landsliðsmönnum sínum inn á. Leiknum lauk án teljandi atvika 58-115, Ungverjalandi í vil.

Emma Sóldís Svan Hjördísardóttir skoraði fyrir Ísland í kvöld í hennar fyrstu innkomu

Atkvæðamestar

Sara Rún Hinriksdóttir var stigahæst í liði Íslands með 15 stig, hún tók þar að auki 7 fráköst, gaf 6 stoðsendingar og stal tveimur boltum. Lovísa Björt Henningsdóttir og Anna Ingunn Svansdóttir bættu síðan við sitt hvorum þremur þristunum og voru báðar með 9 stig.

Tölfræði leiksins

Myndasafn væntanlegt

Umfjöllun: Helgi Hrafn Ólafsson

Myndir: Guðlaugur Ottesen Karlsson

Fréttir
- Auglýsing -