spot_img
HomeFréttirSvaf með smjör á löppunum

Svaf með smjör á löppunum

 
Hlynur Bæringsson verður ekki með Subwaybikarmeisturum Snæfells í kvöld þegar Hólmarar taka á móti ÍR í Iceland Express deild karla. Hlynur er að glíma við meiðsli í kálfa sem hafa elt hann síðan í stigaleiknum mikla gegn FSu á Selfossi. Skarð fyrir skyldi hjá Hólmurum en Hlynur hefur að jafnaði skilað 33,8 framlagsstigum fyrir Snæfell í deildinni þetta tímabilið.
,,Nema sjúkraþjálfarinn geri eitthvað kraftaverk þá er ég ekki að spila í kvöld,“ sagði Hlynur í samtali við Karfan.is. ,,Þetta er það sama og var að angra mig í bikarleiknum síðustu helgi og hefur bara versnað síðan þá. Við unnum vel í þessum meiðslum fyrir bikarleikinn en þetta er ekki orðið nægilega gott,“ sagði Hlynur en vöðvinn í kálfanum ku ekki vera rifinn heldur er um blæðingu að ræða í vöðvanum.
 
,,Þetta hefur grasserast hjá mér og mér er farið að finnast þetta orðið svolítið langur tími,“ sagði Hlynur sem harkaði af sér í bikarsigrinum en taldi það gáfulegast að hvíla í kvöld.
 
,,Ég hef meira að segja notað gömul húsráð í baráttunni við þessi meiðsli og svaf t.d. með smjör á löppunum samkvæmt ráðleggingum góðra manna, það eru margar aðferðir til í þessu,“ sagði Hlynur í léttum tón en hver tekur þá við miðherjastöðu Snæfells í kvöld?
 
,,Ætli allir verði ekki færðir niður um einn, Sigurður Þorvaldsson fari í fjarkann og Nonni Mæju fari í miðherjastöðuna, hann ætti að geta nýtt sér það á móti þessum köllum úti á velli,“ sagði Hlynur sem ætlar að ná sér góðum fyrir næsta leik eftir kvöldið í kvöld en þá fara bikarmeistararnir í heimsókn á Sauðárkrók.
 
Fréttir
- Auglýsing -