spot_img
HomeFréttirSvæðisvörnin skilaði U18 sigri á sterkum Finnum

Svæðisvörnin skilaði U18 sigri á sterkum Finnum

Finnar mættu fastir fyrir í upphafi leiks gegn Íslandi U18 í dag. Það var löngu vitað fyrirfram en samt sem áður virtist það koma okkar mönnum á óvart. Enga hjálp var að fá frá dómurunum sem voru sjálfir seinir í gang og leyfðu fullharðan leik til að byrja með.  Finnar voru að hitta vel og komust snemma í 10-1 forystu.

 

Það var því ekkert annað að gera fyrir okkar menn nema svara í sömu mynt. Þeir hentu í eitt stykki pressu allan völlinn og tóku fast á drengjunum frá þúsund vatna landinu, sem áttu erfitt með að leysa hana í upphafi. Pressan kom Íslandi aftur inn í leikinn sem var orðinn jafn áður en 1. hluta var lokið.

 

Ísland skipti um varnartaktík í öðrum hluta og fór yfir í 2-3 svæði sem kom sóknarleik Finna úr jafnvægi. Teigurinn lokaðist og þurftu Finnar að sætta sig við langskot sem voru ekki að detta eins og í upphafi leiks.  Finnar gripu hins vegar gnægð sóknarfrákasta og héldu sér þannig inni í leiknum en þegar okkar menn lokuðu á þau var leikurinn út.

 

Ísland hélt Finnum í aðeins 20 stigum í seinni hálfleik og tryggði sér öruggan 59-75 sigur og eru U18 strákarnir enn ósigraðir í mótinu.

 

Kári Jónsson leiddi íslenska liðið með 15 stig en fast á eftir honum komu Halldór Garðar og Þórir Guðmundur með 13 stig hvor. 

 

Tölfræði leiks

 

Myndasafn:  Hörður Tulinius

Fréttir
- Auglýsing -