spot_img
HomeFréttirSúrsætt í Röstinni

Súrsætt í Röstinni

Grindvíkingar voru daufir í dálkinn í Röstinni í kvöld þegar þeir máttu þola sitt þriðja tap á leiktíðinni er Snæfell kom í heimsókn. Með Giordan Watson í hvíld sökum smávægilegra meiðsla mættu gulir leikstjórnendalausir og horfðu á Hólmara leika sér í körfubolta. Lokatölur voru 89-101 fyrir Snæfell sem landaði tveimur mikilvægum stigum en Grindvíkingar hófu deildarmeistaratitilinn á loft með súrsætt bros á vör. Fimm leikmenn Snæfells gerðu 14 stig eða meira í leiknum en hjá Grindavík var J´Nathan Bullock einn með rænu og 25 stig og 13 fráköst.
 
Mæting heimamanna í Grindavík á leikinn var miður góð og furðulegt að bæjarbúar sýni liðinu ekki meiri áhuga þegar titill er að fara á loft!
 
Nonni Mæju skóflaði kolum í Snæfellslestina með tveimur þristum í upphafi leiks og Sveinn Arnar Davíðsson fylgdi ekki löngu síðar í kjölfarið og Hólmarar leiddu 8-15 á fyrstu augnablikum leiksins.
 
Snæfell fór að beita svæðispressu allan völlinn go með Giordan Watson í borgaralegum klæðum leystu Grindvíkingar illa úr þessu varnarafbrigði gestanna sem leiddu 21-34 að loknum fyrsta leikhluta.
 
Annar leikhluti var skárri af hálfu heimamanna og um miðjan leikhlutann fóru Grindvíkingar að bíta frá sér en staðan var 39-52 fyrir Snæfell í leikhléi þar sem þeir félagar Quincy Hankins-Cole og Marquis Hall voru báðir með 13 stig hjá Snæfell en J´Nathan Bullock með 17 stig í liði Grindavíkur.
 
Í síðari hálfleik gekk hvorki né rak hjá Grindavík og undir lok þriðja leikhluta var Helgi Jónas Guðfinnsson þjáflari Grindavíkur búinn að missa þolinmæðina fyrir kæruleysislegum leik sinna manna. Páll Axel minnkaði muninn í 61-72 með þriggja stiga körfu en Hafþór Gunnarsson jók muninn í 14 stig með þrist á hinum endanum og staðan 61-75 fyrir Snæfell fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
 
Grindvíkingum gekk lítið í vörninni, prófuðu svæðisvörn örugglega í fyrsta sinn á leiktíðinni fyrstu þrjár mínútur í fjórða leikhluta en hún var jafnvel verri en maður á mann vörnin svo Helgi Jónas skipaði mönnum aftur í maður á mann.
 
Hafþór Gunnarsson setti þrist og fékk villu að auki, vítið steinlá og í næstu sókn setti Hafþór annan þrist og splæsti í sjö stiga dembu fyrir gestina en Snæfell gerði 14 þriggja stiga körfur í Röstinni í kvöld!
 
Þegar þrjár mínútur voru til leiksloka eygði Grindavík smá von um að komast nærri en Hólmarar vildu ekki heyra á það minnst og lokuðu leiknum með glæsilegri ,,alley-up" troðslu þar sem Pálmi Freyr grýtti boltanum á Quincy Hankins-Cole sem tróð með tilþrifum, lokatölur 89-101 Snæfell í vil.
 
Grindavík er sem fyrr á toppnum og verða þar út deildarkeppnina en hafa nú tapað tveimur leikjum í röð. Hólmarar eru sem fyrr í 6. sæti deildarinnar og nú með 22 stig og geta enn klifið töfluna í von um heimaleikjarétt í úrslitakeppninni.
 
Heildarskor:
 
Grindavík-Snæfell 89-101 (21-34, 18-18, 22-23, 28-26)
 
Grindavík: J’Nathan Bullock 25/13 fráköst, Páll Axel Vilbergsson 18/5 fráköst, Þorleifur Ólafsson 13, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 7/9 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 7/7 fráköst, Ólafur Ólafsson 6/5 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 6/5 fráköst, Ryan Pettinella 4/4 fráköst, Björn Steinar Brynjólfsson 3, Ármann Vilbergsson 0, Einar Ómar Eyjólfsson 0, Jón Axel Guðmundsson 0.
 
Snæfell: Marquis Sheldon Hall 22/4 fráköst, Quincy Hankins-Cole 21/17 fráköst, Jón Ólafur Jónsson 18/11 fráköst/5 stoðsendingar, Pálmi Freyr Sigurgeirsson 14/6 fráköst, Hafþór Ingi Gunnarsson 14, Sveinn Arnar Davidsson 8/5 stoðsendingar, Ólafur Torfason 2/4 fráköst, Óskar Hjartarson 2, Magnús Ingi Hjálmarsson 0, Snjólfur Björnsson 0, Þorbergur Helgi Sæþórsson 0.
 
Fréttir
- Auglýsing -