Phoenix Suns jöfnuðu metin gegn LA Lakers í úrslitum vesturdeildar NBA í nótt með fræknum heimasigri, 115-106. Bæði lið hafa nú unnið tvo leiki.
Ekki einu sinni stórleikur frá Kobe Bryant, þar sem hann var með 38 stig og 10 stoðsendingar, dugði til að þessu sinni þar sem varamenn Suns stálu senunni.
Leikurinn var jafn í fyrsta leikhluta en Suns náðu frumkvæðinu og leiddu með níu stigum í hálfleik. Kobe hóf þá skotsýningu þar sem hann gerði 16 stig í fjórðungnum og Lakers komust einu stigi yfir áður en Goran Dragic svaraði fyrir Suns rétt áður en leikhlutanum lauk.
Jordan Farmar hóf lokaleikhlutann með 3ja stiga körfu og kom Lakers yfir á ný, 87-85, en þá tóku varamenn heimaliðsins við sér á nýjan leik og skoruðu 18 stig gegn 3 og gerðu út um leikinn.
Suns hafa svo sannarlega sýnt að þeir eru tilbúnir til að takast á við Lakers, en fyrstu leikina var lítinn neista að sjá hjá þeim. Ef bekkurinn heldur áfram að skila sínu mega meistararnir fara að passa sig.
Amare Stoudemire var með 21 stig fyrir Suns, Steve Nash 15, Leandro Barbosa var með 14 líkt og Channing Frye, sem hafði hitt úr einu skoti í seríunni og klikkað á 18 skotum í röð.
Hjá Lakers var Kobe með 38, Pau Gasol var bara með 15 stig líkt og Lamar Odom, Ron Artest var með 13 og Andrew Bynum var með 12.
Phil Jackson, þjálfari Lakers var ekki ánægður með frammistöðu sinna manna í leiknum, en sagði að hann hefði getað farið betur. Suns voru t.d. með 22 stig úr 32 vítaskotum á meðan Lakers voru með 7 úr 13.
Svarið lá hins vegar endanlega í framlagi bekkjarins þaðan sem Suns fengu 54 stig gegn 20 stigum Lakers.



