spot_img
HomeFréttirSunnlendingar bikarmeistarar í unglingaflokki karla

Sunnlendingar bikarmeistarar í unglingaflokki karla

 
Sameiginlegt lið Hamars/Þórs er bikarmeistari í unglingaflokki karla eftir 61-60 sigur á Njarðvík í úrslitaviðureign liðanna í Ljónagryfjunni. Boðið var upp á magnaðan spennuleik þar sem í boði voru nokkrir mögulegir endar á þessum leik en niðurstaðan varð sigur Sunnlendinga sem voru þéttir í vörninni með Ragnar Nathanaelsson sem límið í svæðisvörninni. Oddur Ólafsson var útnefndur besti maður leiksins með 18 stig, 4 stoðsendingar og 4 stolna bolta í liði Hamars/Þórs. Allt er þegar þrennt er en þetta var þriðji bikarúrslitaleikur Hamars/Þórs þessa helgina en fyrstu tveir voru tapleikir og Sunnlendingar því gullinu fegnir í þetta skiptið. 
Leikar voru stál í stál frá upphafi til enda og í stöðunni 12-12 var Hjörtur Hrafn Einarsson kominn með 8 af 12 stigum heimamanna. Þegar tæpar 7 mínútur voru liðnar af fyrsta leikhluta skipti Ágúst Björgvinsson byrjunarliðinu út af hjá Hamri/Þór og inn komu 10 ferskir fætur sem stóðu sig ekki síðar en fyrri tíu en Njarðvíkingar leiddu engu að síður 18-14 eftir fyrsta leikhluta þar sem Hilmar Hafsteinsson kom sprækur af bekknum og gerði 4 hraðaupphlaupsstig í röð fyrir Njarðvíkinga.
 
Í öðrum leikhluta réð vörnin öllu á báða bóga og því umhverfi þrífst Bjarni Rúnar Lárusson vel enda tók hann 11 fráköst og gerði 4 stig fyrir Hamar/Þór í dag. Njarðvíkingar voru þó fyrri til að skora og þar var Hilmar Hafsteinsson að verki með sitt sjötta hraðaupphlaupsstig. Hamar/Þór var seinni í gang í öðrum leikhluta en Njarðvíkingar náðu ekki að slíta sig frá gestunum og því var jafn 32-32 þegar liðin gengu til hálfleiks.
 
Hjörtur Hrafn var með 13 stig í hálfleik hjá Njarðvíkingum en Páll Helgason var kominn með 5 stig í liði Hamars/Þórs en stigaskorið drefiðist vel í dag hjá báðum liðum.
 
Styrmir Gauti Fjeldsted gerði 4 fyrstu stig Njarðvíkur í síðari hálfleik og Ágúst Björgvinsson sá sig knúinn til þess að taka leikhlé hjá sínum mönnum. Rúnar Ingi Erlingsson jók muninn í 39-33 með þriggja stiga körfu fyrir Njarðvíkinga en gestirnir komust nærri og maður leiksins, Oddur Ólafsson, náði forystunni fyrir Hamar/Þór 42-41 þegar rúmar tvær mínútur voru eftir af þriðja leikhluta.
 
Hamar/Þór gerði lítið í því að finna þá 218 cm. sem þeir áttu í teignum en þau fáu skipti sem Ragnar miðherji Hamars/Þórs fékk fullnægjandi sendingu þá skilaði strákurinn sínu en hann átti fínan dag í liði Sunnlendinga með 8 stig, 10 fráköst og 3 varin skot.
 
Gestirnir leiddu 43-46 fyrir fjórða og síðasta leikhluta en þeir unnu þriðja leikhluta 11-14 og síðari hálfleikur einkenndist allur af sterkum varnarleik þar sem menn á löngum köflum fundu ekki körfurnar.
 
Valur Orri Valsson hafði hægt um sig framan af leik en hann gerði fjögur fyrstu stig Njarðvíkinga í fjórða leikhluta og átti eftir að koma aftur við sögu á veigamiklum tímapunkti í leiknum. Hamar/Þór hélt frumkvæðinu alveg þangað til ein og hálf mínúta var til leiksloka er Styrmir Gauti kom Njarðvík í 59-58 á vítalínunni.
 
Páll Helgason splæsti svo í eina dýrustu körfu helgarinnar þegar hann jarðaði þrist fyrir Hamar/Þór og breytti stöðunni í 59-61 Sunnlendingum í vil og ein mínúta til leiksloka.
 
Þegar 24 sekúndur voru svo eftir af leiknum var dæmt skref á Hamar/Þór og Njarðvíkingar fengu boltann. Njarðvíkingar náðu skoti sem geigaði en tóku sóknarfrákastið og svo fór að Valur Orri Valsson sótti að körfunni og brotið var á honum.
 
Valur hélt á vítalínuna og setti niður fyrsta vítið og staðan 60-61 og 4 sekúndur eftir. Valur misnotaði seinna vítið en Njarðvíkingar náðu frákastinu og barst boltinn til Elíasar Kristjánssonar sem reyndi erfitt lokaskot utan við þriggja stiga línuna en það geigaði og Hamar/Þór fagnaði sigri 60-61 og fögnuðu þeir vel og innilega.
 
Oddur Ólafsson var útnefndur maður leiksins með 18 stig, 4 stoðsendingar og 4 stolna bolta en næstur honum var Páll Helgason með 12 stig og 6 fráköst. Þeir Ragnar, Baldur Þór og Bjarni Rúnar áttu einnig fínar rispur í liði Hamars/Þórs.
 
Hjá Njarðvíkingum var Hjörtur Hrafn Einarsson með 17 stig og 8 fráköst og Styrmir Gauti Fjeldsted kom honum næstur með 12 stig og 4 fráköst. Hilmar Hafsteinsson kom sprækur af bekknum í fyrri hálfleik hjá Njarðvík og Valur Orri Valsson sýndi ágætan leik í síðari hálfleik.
 
Dómarar leiksins: Eggert Þór Aðalsteinsson og Erlingur Snær
 
Fréttir
- Auglýsing -