Þriðju viðureign Sundsvall Dragons og Södertalje Kings í úrslitum sænsku úrvalsdeildarinnar var að ljúka áðan þar sem Sundsvall minnkaði muninn í 2-1 með 80-75 sigri á heimavelli. Þá var Hlynur Bæringsson leikmaður Sundsvall í dag útnefndur varnarmaður ársins í sænsku deildinni og Peter Öqvist þjálfari drekanna útnefndur þjálfari ársins.
Hlynur toppaði útnefninguna í dag með því að vera stigahæstur í leiknum hjá Sundsvall með 18 stig, 7 fráköst og 3 stoðsendingar. Þá bætti Jakob Örn Sigurðarson við 6 stigum og 5 stoðsendingum.
Staðan í einvíginu er því 2-1 fyrir Södertalje en vinna þarf fjóra leiki til þess að verða sænskur meistari. Liðin mætast aftur þann 25. apríl næstkomandi og þá á heimavelli Södertalje.