Hlynur Bæringsson og Jakob Sigurðarson gerðu góða ferð til Norrköping í dag þegar Sundsvall Dragons jafnaði metin 1-1 í úrslitarimmunni gegn Norrköping Dolphins um sænska meistaratitilinn. Lokatölur í leiknum voru 93-94 Sundsvall í vil sem leiddu með 14 stigum fyrir lokasprettinn en Norrköping gerði góða atlögu að sigrinum og þegar sex sekúndur lifðu leiks brenndu heimamenn af sniðskoti og Hlynur Bæringsson tók lokafrákast leiksins og Sundsvall fagnaði sigri.
Jakob Örn gerði 16 stig í leiknum, tók 3 fráköst og gaf 3 stoðsendingar og Hlynur bætti við 15 stigum og 11 fráköstum ásamt því að gefa 2 stoðsendingar. Næsti leikur verður í Sundsvall á þriðjudag en þessir fyrstu tveir leikir liðanna lofa góðu enda báðir unnist með eins stigs mun.