spot_img
HomeFréttirSumarið og 1. deild: Valur

Sumarið og 1. deild: Valur

 
Yngvi Gunnlaugsson og liðsmenn hans í Val hafa ekki setið auðum höndum í sumar og hafa notið liðsinnis styrktarþjálfara við undirbúninginn fyrir komandi leiktíð í 1. deild karla. Yngvi fór með Valsmenn í úrslitarimmu gegn Haukum um laust sæti í úrvalsdeild í úrslitakeppni 1. deildarinnar á síðasta tímabili. Haukar höfðu betur og skildu Valsmenn eftir í 1. deildinni, hlutskipti sem Valsmenn þekkja orðið af biturri reynslu en nú segir Yngvi að verið sé að snúa við blaðinu, tímabilið sé fyrst og fremst skemmtun og þannig komi árangurinn.
,,Við erum að ganga frá síðustu samningunum við leikmenn og sömdum t.d. við Pál Fannar Helgason í fyrradag og svo eru auðvitað aðrir möguleikar á borðinu sem við erum að skoða. Við erum að vinna í erlendum leikmanni og gerum ráð fyrir að halda öðrum lykilmönnum innan hópsins og vonumst til að þær viðbætur sem kunni að berast geri liðið okkar enn betra en í fyrra,“ sagði Yngvi en eru úrvalsdeildarfélögin ekkert á höttunum eftir leikmönnum á borð við Hörð Hreiðarsson í hans röðum?
 
,,Við gerum ráð fyrir Herði með okkur á næsta tímabili eins og staðan er í dag, hann lofaði því að við værum hans fyrsti kostur og því treystum við,“ sagði Yngvi en Hörður gerði 12,6 stig og tók 5,3 fráköst að meðaltali í leik með Valsmönnum og gerði gott betur í úrslitakeppninni þegar hann átti hvern stórleikinn á fætur öðrum.
 
Aðspurður hvort Valsmenn myndu tefla fram tveimur erlendum leikmönnum næsta tímabil sagði Yngvi: ,,Við gerum það sem við teljum okkur þurfa að gera og það þarf tvo erlenda leikmenn þá gerum við það en við vonumst til að þeir íslensku verði það góðir að við getum haldið okkur við einn erlendan leikmann,“ sagði Yngvi og er þá von á Byron Davis aftur á Hlíðarenda? ,,Það er ekki loku fyrir það skotið en við erum að skoða þessi mál.“
 
Valsmenn hafa nú margoft reynt að komast í úrvalsdeildina á ný og síðustu ár hafa þeir verið grátlega nærri. Er tíminn kominn? ,,Ég vil ekki að neinn leikmaður beri þetta eins og myllustein um hálsinn, að komast upp í úrvalsdeild eða ekki. Auðvitað er það langtímamarkmið að koma liðinu upp en það hefur sýnt sig að það er ekkert auðvelt. Fyrst og fremst ætlum við okkur að vera í toppbaráttunni enda var mórallinn í hópnum góður á síðasta tímabili og það er eitthvað sem við byggjum á,“ sagði Yngvi sem bætist nú í hóp þeirra Ágústar Sigurðar Björgvinssonar og Inga Þórs Steinþórssonar, þjálfarar sem stýra bæði karla- og kvennaliðum sinna félaga.
 
,,Ég er búinn að taka við kvennaliði Vals en hef ekki skrifað undir samninginn ennþá,“ sagði Yngvi en vill ekki bera sig saman við Ágúst og Inga Þór. ,,Það er allt annað að þjálfa tvö lið í 1. deild en tvö lið í úrvalsdeild, maður er ekki með fjölmiðlana andandi ofan í hálsmálið á sér, svigrúm með æfingar er meira og annað, leikirnir eru færri en að sama skapi æfa liðin samt eins og úrvalsdeildarlið. Þetta vex mér ekki í augum enda er ég með góða aðstoðarmenn, þau Lýð Viginsson í karlaliðinu og Hafdísi Helgadóttur í kvennaliðinu,“ sagði Yngvi sem vill að næsta leiktíð verði skemmtileg.
 
,,Við erum jákvæðir og bíðum spenntir eftir tímabilinu, menn eru farnir að líta á þetta öðrum augum en þeir gerðu, þetta er fyrst og fremst skemmtilegt og til að ná árangri verða menn að hafa gaman af því sem þeir eru að gera.“
 
Ljósmynd/ Yngvi mun stjórna bæði karla- og kvennaliði Vals á næsta tímabili.
 
Fréttir
- Auglýsing -