spot_img
HomeFréttirSumarið og 1. deild: Þór Þorlákshöfn

Sumarið og 1. deild: Þór Þorlákshöfn

 
Benedikt Rúnar Guðmundsson tók við Þór Þorlákshöfn að loknu síðasta tímabili og hafa strákarnir úr höfninni tekið fyrstu skrefin með nýja þjálfaranum. Við tókum púlsinn á Benna sem síðustu tvö ár gerði karla- og kvennalið KR að Íslandsmeisturum og skiljanlega því miklar vonir bundnar við komu hans til Þorlákshafnar.
,,Ég er að byggja upp lið algerlega frá grunni. Það voru 17 leikmenn sem spiluðu með liðinu í fyrra og nú er ljóst að 12 þeirra verða ekki. Ungu strákarnir í liðinu eru gríðarlega metnaðarfullir og við höfum æft allan júnímánuð en sterkir leikmenn á borð við Magnús Pálsson verða ekki með liðinu á næsta tímabili,“ sagði Benedikt sem er vissulega blóðtaka fyrir Þórsara þar sem Magnús var einn af lykilmönnum Þorlákshafnarliðsins á síðasta tímabili. ,,Magnús var ein af ástæðunum að ég ákvað að taka við liðinu en hann ætlar að taka sér frí frá körfuboltaiðkun í vetur og maður bara virðir það."
 
Þórsarar hafa þó tryggt sér bandarískan leikmann fyrir tímabilið, af þeirri gerð sem reynst hefur íslenskum varnarmönnum erfiður viðureignar. ,,Hann heitir Courtney Beasley og er svona ,,all around“ gæji og ef ég ætti að líkja honum við einhvern væri það AJ Moye sem lék með Keflavík á sínum tíma. Hann kemur úr Southern Missisippi skólanum en þaðan hafa þeir nokkrir komið og spilað á Íslandi, t.d. Herman Meyers,“ sagði Benedikt en meira af leikmannamálum liðsins því mikið mun mæða á þeim bræðrum Þorsteini og Baldri Ragnarssonum á næstu leiktíð og þá hefur Hjalti Valur Þorsteinsson úr Hveragerði gengið til liðs við Þórsara. ,,Þessir ungu strákar eru þvílíkt duglegir og æfa vel. Þeir hafa rétt hugafar líka og á þannig hugafari viljum við byggja upp liðið."
 
Þórsarar taka sér tveggja vikna sumarfrí frá æfingum að lokinni þessari viku og þó enn sé óvíst með stöðu mála hjá liðinu hefur Benedikt ekki miklar áhyggjur. ,,Við verðum með lið, það er bara spurning hvernig það verður skipað. Það hefur oft verið basl hérna í Þorlákshöfn að halda úti liði þar sem það eru ekki margir iðkendur í svona litlu bæjarfélagi. Maður nýtir bara sambönd erlendis ef það verður eitthvað basl að búa til hóp. Eftir sumarfríið förum við svo á fullt fyrir alvöru svo það er erfitt að vera í einhverri markmiðasetningu núna enda of mörgum spurningum ósvarað,“ sagði Benedikt en á síðustu leiktíð komst Þór Þorlákshöfn í úrslitakeppni 1. deildar þar sem þeir máttu þola ósigur gegn Haukum sem síðar mættu Val í úrslitum um laust sæti í Iceland Express deildinni.
 
 
Fréttir
- Auglýsing -