Ármenningar höfnuðu í 7. sæti 1. deildar karla á síðustu leiktíð undir stjórn nýs þjálfara. Tómas Hermannsson stýrði Ármanni síðasta tímabil og verður áfram við stjórnartaumana á komandi leiktíð. Fyrirséð er að einhverjar breytingar verði á hópnum og einn sterkasti leikmaður liðsins, Daði Berg Grétarsson, hefur lagt land undir fót og er kominn í raðir KFÍ manna í Iceland Express deildinni.
,,Við vorum á fullu strax eftir tímabilið og fram að mánaðarmótum júní-júlí þegar mörg hver hús hér í bænum lokuðu fyrir sumarfrí. Við tökum nú smá frí í júlímánuði en menn eru að lyfta og sumir hverjir æfa ástralskan fótbolta, men koma víða við í öðru sporti og halda sér við efnið,” sagði Tómas sem tók við Ármanni fyrir um það bil ári síðan og þá urðu gríðarlegar breytingar á hópnum.
,,Í fyrra missti ég 12 leikmenn fyrir tímabilið, ég hef bara aldrei séð svoleiðis áður. Það fara ekki eins margir núna og gerðu í fyrra þar sem menn hafa verið að mæta í sumar og lýst áhuga á því að halda áfram. Við vissum að Daði Berg myndi ekki stoppa lengi hjá okkur enda stefndi hann í úrvalsdeildina en við höldum sama kjarna í hópnum,” sagði Tómas sem á síðasta tímabili telfdi fram hinni 35 ára gömlu stórskyttu, Halldóri Kristmannssyni, sem reyndist einn sterkasti leikmaður Ármanns með 14,4 stig að meðaltali í leik.
,,Halldór heldur áfram, hann er nú búinn að láta gera við hnéið á sér en hann spilaði meiddur allan síðasta vetur. Halldór mætti á fyrstu æfinguna í júní rúmum mánuði eftir aðgerð og stefnir að því að spila meira og betur á næsta tímabili,” sagði Tómas en varðandi markmið næsta tímabils gerðist þjálfarinn nokkuð ómyrkur í máli.
,,Við höfnuðum í 7. sæti síðasta tímabil og þá var markmiðið að halda okkur í deildinni og það tókst. Þegar ég svo sé hvaða mannskap við munum hafa þá skulum við sjá hvað verður. Í grunninn er það raunhæft að halda sætinu í deildinni og halda áfram að byggja upp það sem við höfum, efnilegir leikmenn eru að koma upp í yngri flokkunum og það er magnað hvað Kalli (Karl Guðlaugsson) heldur vel utan um þetta.”
Ljósmynd/ Halldór Kristmannsson mætir sterkur til leiks næsta tímabil eftir hnéaðgerð á dögunum.



