spot_img
HomeFréttirSumarfrísraddir rassskelltar í Keflavíkinni

Sumarfrísraddir rassskelltar í Keflavíkinni

Með bakið upp við vegg hefur Keflvíkingum tekist það sem allir töldu ómögulegt, að knýja fram oddaleik gegn KR eftir að hafa lent 2-0 undir í einvígi liðanna í undanúrslitum Iceland Express deildar karla. Keflavík lagði KR í kvöld 104-103 eftir framlengda og dramatíska viðureign en þetta var annar leikurinn í röð þar sem framlengingu þurfti til að knýja fram úrslit leiksins. Magnús Þór Gunnarsson hrökk í gang, svellkaldur á ögurstundum setti hann hverja þungavigtarkörfuna á fætur annarri og lauk leik með 29 stig í Keflavíkurliðinu.
Nú er svo búið að blásið verður til oddaleiks í DHL-Höllinni næstkomandi fimmtudagskvöld þar sem ræðst endanlega hvort KR eða Keflavík leiki til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn gegn Stjörnunni.
 
Heimamenn í Keflavík byrjuðu betur, Gunnar Einarsson og Hörður Axel Vilhjálmsson lönduðu tveimur þristum og Gunnar kom síðar með annan og staðan 13-8 fyrir Keflavík. Gestirnir úr Vesturbænum rönkuðu við sér eftir þristinn frá Gunnari og skoruðu næstu tíu stig og var Brynjar Þór beittur í liði gestanna. Upphafsmínútur leiksins voru fjörugar en svo snöggkólnaði í Toyota-höllinni. Bæði lið glímdu við dræma nýtingu það sem eftir lifði fyrsta hluta en KR leiddi eftir fyrstu tíu mínúturnar, 17-20.
 
Magnús Þór Gunnarsson setti tvo sterka í upphafi annars leikhluta og kom Keflavík í 25-22 en Ólafur Már Ægisson gerði fyrsta þrist KR í leiknum eftir 13 mínútna leik og kom gestunum yfir 26-27, fjörugar fyrstu mínúturnar í öðrum leikhluta, rétt eins og í þeim fyrsta.
 
Brynjar Þór Björnsson var utan vallar í liði KR fyrstu mínútur annars leikhluta en þegar Keflvíkingar virtust ætla að síga aðeins framúr sendi Hrafn Kristjánsson hann strax aftur inn á parketið. Keflvíkingar voru að pressa og falla aftur í svæðisvörn og gegn henni setti Brynjar svo til strax tvo beitta þrista og komst KR í 33-35. Magnús Þór minnkaði muninn í 40-41 með þrist fyrir Keflavík og liðin gengu svo til hálfleiks í stöðunni 44-44.
 
Þeir Thomas Sanders og Magnús Þór Gunnarsson voru báðir með 11 stig hjá Keflavík í hálfleik en hjá KR var Brynjar Þór Björnsson með 16 stig og Marcus Walker 12.

 
Gunnar Einarsson opnaði síðari hálfleik með þrist fyrir Keflavík og kom heimamönnum í 47-46 og var mikill hraði fyrstu mínúturnar í þriðja leikhluta, liðin skiptust á að skora og þar fór Marcus Walker fremstur í flokki. Í upphafi þriðja leikhluta signdi kappinn sig og það virtist gefa góða raun, Walker átti þriðja leikhluta á báðum endum vallarins.
 
Í upphafi þriðja leikhluta fékk Brynjar Þór Björnsson sína fjórðu villu í liði KR og sást ekki meir fyrr en um miðbik fjórða leikhluta. Thomas Sanders gerði svo góða körfu fyrir Keflavík í hraðaupphlaupi er hann jafnaði metin í 61-61 og 1.52mín. eftir af þriðja leikhluta. Hrafn Kristjánsson tók leikhlé fyrir KR og það skilaði tilætluðum árangri.
 
KR gerði 8 síðstu stig leikhlutans og þrjú síðustu komu þegar fimm sekúndur voru eftir þegar Pavel Ermolinskij braust í gegn, skoraði og fékk villu að auki, staðan 61-69 fyrir KR og fjórði leikhluti framundan.
 
Pavel Ermolinskij fékk högg á hægra hné í upphafi fjórða leikhluta og hélt af velli, hann var ekki lengi utanvallar og kom endurnærður inn, setti sinn fyrsta þrist og gerði fimm stig á skömmu tíma fyrir KR sem sigu framúr undir stjórn Pavels 65-76 þegar rúmar tvær mínútur voru liðnar af fjórða leikhluta.
 
Þegar um fimm mínútur voru liðnar af fjórða leikhluta kom Brynjar Þór Björnsson aftur inn í lið KR sem enn hafði tökin á leiknum, staðan 75-84 en hægt og sígandi fóru heimamenn að nálgast og geta þakkað Magnúsi Þór Gunnarssyni og nokkrum lygilegum körfum fyrir það.
 
Magnús minnkaði muninn í 80-86 með þriggja stiga körfu og síðar jafnaði hann leikinn í 87-87 með lygilegum þrist og tvo talsvert stærri leikmenn í andlitinu. Þegar hér var komið við sögu voru ein mínúta og fjörutíu sekúndur til leiksloka, eða eins og Magnús Þór kallar það: ,,Bara annar dagur á skrifstofunni!“
 
Eins og gefur að skilja fór allt í lás á lokasprettinum, Ciric skoraði svo fyrir Keflavík uppi á lyklinum þegar 24 sekúndur voru til leiksloka, staðan 89-87 fyrir Keflavík og KR tók leikhlé. Vesturbæingar tóku innkastið á miðjum velli en þegar 8 sekúndur voru til leikslok braut Ciric á KR-ingum, gestirnir voru ekki komnir með skotrétt og tóku því innkast. Marcus ,,The Bullet“ Walker braut sér leið á fjórum sekúndum í gegnum Keflavíkurvörnina og jafnaði 89-89 þegar fjórar sekúndur voru til leiksloka. Heimamenn tóku leikhlé.
 
Ciric fékk boltann úr innkastinu í liði Keflavíkur og fór sterkt upp gegn KR vörninni en boltinn dansaði af hringnum og því varð að framlengja annan leikinn í röð, staðan 89-89 eftir venjulegan leiktíma.
 
KR byrjaði betur í framlengingunni, komust í 89-95 eftir að Fannar Ólafsson skoraði og fékk villu að auki. Hörður Axel steig þá upp í liði heimamanna og jafnaði metin í 95-95 með tveimur þriggja stiga körfum af dýrari gerðinni. Þegar rétt rúm mínúta var eftir af framlengingunni stal Marcus Walker tveimur boltum í röð og jók muninn í 97-101 fyrir KR. Gunnar Einarsson steig þá upp hjá Keflavík og setti þrist, staðan 100-101 KR í vil. Fannar Ólafsson jók muninn í 3 stig, 100-103 með laglegri hreyfingu á blokkinni.
 
Sigurður Gunnar Þorsteinsson var öruggur á vítalínunni fyrir Keflavík þegar 42 sekúndur voru til leiksloka og minnkaði muninn í 102-103. KR skoraði ekki í næstu sókn og Keflavík brunaði af stað, Magnús Þór tók erfiðan þrist fyrir Keflavík en Thoms Sanders kom aðvífandi, náði sóknarfrákastinu og lagði boltann í körfuna, 104-103 fyrir Keflavík. Sanders farinn að leggja það í vana sinn að taka gullhúðuð sóknarfráköst í úrslitakeppninni.
 
KR tók leikhlé og átti síðustu sóknina. Skot þeirra geigaði í teignum, Sigurður Þorsteinsson tók frákastið og gestirnir brutu strax á honum, bæði vítin geiguðu, KR brunaði af stað og Ólafur Már Ægisson endaði með boltann í höndunum, reyndi erfitt þriggja stiga skot sem geigaði og Keflvíkingar fögnuðu sigri á meðan KR-ingar voru brjálaðir yfir að ekki hafi verið dæmt villa þar sem Ólafur taldi brotið á sér. Ekkert var flautað í þessu tilfelli og lokatölur því 104-103 Keflavík í vil, oddaleikur á fimmtudag, framlengt í leikjum 3 og 4, þarf að segja meira?
 
Keflavík er eina liðið í íslenskri körfuknattleikssögu sem unnið hefur einvígi í úrslitakeppninni eftir að hafa lent 2-0 undir, endurtaka þeir leikinn á fimmtudag eða fer KR áfram í úrslit, við fáum þau svör á fimmtudagskvöld og vissara fyrir áhorfendur að mæta tímanlega í DHL-Höllina enda verður smekkpakkfullt út úr dyrum þann daginn.

Viðtal við Hörð Axel leikmann Keflavíkur á Karfan TV

 
Heildarskor:
 
Keflavík: Magnús Þór Gunnarsson 29/4 fráköst, Thomas Sanders 21/8 fráköst/7 stoðsendingar, Hörður Axel Vilhjálmsson 16/6 fráköst/7 stoðsendingar, Andrija Ciric 13/11 fráköst, Gunnar Einarsson 12/7 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 8/8 fráköst/7 stoðsendingar/5 varin skot, Þröstur Leó Jóhannsson 5, Elentínus Margeirsson 0, Almar Stefán Guðbrandsson 0, Jón Nordal Hafsteinsson 0/4 fráköst, Halldór Örn Halldórsson 0, Gunnar H. Stefánsson 0.
 
KR: Marcus Walker 28/9 stoðsendingar, Brynjar Þór Björnsson 20, Pavel Ermolinskij 16/17 fráköst/5 stoðsendingar, Finnur Atli Magnússon 12/8 fráköst/3 varin skot, Fannar Ólafsson 9/10 fráköst, Skarphéðinn Freyr Ingason 6, Ólafur Már Ægisson 6, Hreggviður Magnússon 6, Martin Hermannsson 0, Jón Orri Kristjánsson 0, Ágúst Angantýsson 0, Páll Fannar Helgason 0.
 
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Davíð Kr. Hreiðarsson
Eftirlitsdómari: Jón Bender
 
Ljósmyndir/ Tomasz Kolodziejski [email protected]  
 
Umfjöllun/ Jón Björn Ólafsson [email protected]  

Fréttir
- Auglýsing -