spot_img
HomeFréttirSuðurnesjaliðin tóku 5 af 9 bikartitlum í boði

Suðurnesjaliðin tóku 5 af 9 bikartitlum í boði

 
Bikarúrslitahelgi yngri flokka fór fram í Ljónagryfjunni í Njarðvík um síðustu helgi. Alls voru níu leikir á dagskránni, fjórir á laugardag og fimm á sunnudag. Njarðvík og Keflavík voru einu félögin sem unnu tvo bikartitla þessa helgina en Njarðvík vann í 10. og 11. flokki karla en Keflavík vann í 9. og 10. flokki kvenna.
Boðið var upp á margar háspennu viðureignir og hápunktinum náð með lokaleik helgarinnar þar sem Hamar/Þór tryggði sér bikarinn í unglingaflokki með eins stigs mun eftir að Njarðvíkingar brenndu af lokaskoti leiksins.
 
Þessa helgina voru allir leikirnir sýndir í beinni útsendingu hjá www.sporttv.is og þá var KKÍ með lifandi tölfræði allan laugardaginn en sökum bilana í sæstreng var ekki hægt að hafa lifandi tölfræði á sunnudeginum en tölfræði þeirra leikja er þó komin inn á heimasíðu KKÍ núna og hægt að skoða hana þar.
 
Mæting á leikina um síðustu helgi var einnig góð og t.d. var nánast fullt í stúkunni á úrslitaviðureign Njarðvíkinga og Hamars/Þórs í unglingaflokki karla. Kanónur á borð við Friðrik Inga Rúnarsson, Benedikt Guðmundsson, Inga Þór Steinþórsson og Margréti Sturlaugsdóttur lýstu leikjunum hjá Sport TV og þá var Karfan.is með veglega umfjöllun og myndasöfn frá öllum leikjum helgarinnar.
 
 

Samkvæmt upplýsingum Karfan.is voru félögin fleiri en teljandi er á fingrum annarrar handar sem sóttu um að halda bikarúrslitakeppnina hjá yngri flokkum þetta árið og urðu Njarðvíkingar fyrir valinu. Umgjörð mótsins var öll hin besta og er óhætt að segja að mikil vinna liggji á bak við svona helgi. Reyndar hafa félögin staðið sig með miklum sóma undanfarið við bikarúrslitahelgi yngri flokka og ekki þarf að fara langt aftur í tímann til að muna að félögin veigruðu sér við því að standa að svona helgi. Þessi veruleiki sem við búum við í dag er mikill áfangasigur fyrir íslenskan körfuknattleik enda skiptir sterk umgjörð utan um grasrótina öllu máli!

 
Sigurvegarar um helgina
 
Laugardagur 27. febrúar
 
9. flokkur kvenna
Keflavík 56-44 Breiðablik
 
10. flokkur karla
Njarðvík 74-56 KR
 
Stúlknaflokkur
Haukar 71-68 Keflavík
 
Drengjaflokkur
Snæfell/Skallagrímur 80-78 Hamar/Þór
 
Sunnudagur 28. febrúar
 
9. flokkur karla
KR 63-62 Hamar/Þór
 
10. flokkur kvenna
Keflavík 53-34 Haukar
 
11. flokkur karla
Njarðvík 79-71
 
Unglingaflokkur kvenna
Grindavík 64-62 Haukar
 
Unglingaflokkur karla
Hamar/Þór 61-60 Njarðvík
 
Bikartitlar yngri flokka aðildarfélaga KKÍ 2010:
 
Keflavík: 2
Njarðvík: 2
Haukar: 1
Snæfell/Skallagrímur: 1
KR: 1
Grindavík: 1
Hamar/Þór: 1
 
Fréttir
- Auglýsing -