spot_img
HomeFréttirStyttra síðan Haukar léku í úrvalsdeild

Styttra síðan Haukar léku í úrvalsdeild

Í kvöld mætast Valur og Haukar í sínum öðrum úrslitaleik um laust sæti í Iceland Express deild karla á næstu leiktíð. Haukar leiða einvígið 1-0 og geta með sigri í kvöld komið sér upp um deild en Haukar féllu úr úrvalsdeildinni leiktíðina 2007.
Leiktíðina 2007 höfnuðu Haukar í 12. sæti deildarinnar með 8 stig og hafa Hafnfirðingar allar götur síðan þá leikið í 1. deildinni. Lengra er síðan Valsmenn léku í úrvalsdeild en það var leiktíðina 2003 og þá hafnaði félagið í 11. sæti deildarkeppninnar með 10 stig.
 
Bæði félögin byggja á fornum grunni og eiga það sameiginlegt að hafa orðið Íslandsmeistarar hér í fyrndinni, Valsmenn í tvígang, 1979-1980 og svo aftur tímabilið 1982-1983. Eini Íslandsmeistaratitill Hauka kom tímabilið 1987-1988.
 
Óhætt er að segja að þessi tvö lið eigi þó nokkuð í land með að verða Íslandsmeistarar að nýju en bæði eru þau vissulega verðugir fulltrúar í keppninni um laust sæti í deild þeirra bestu. Það verður gaman að heimsækja leiki á næstu leiktíð í úrvalsdeildinni á annaðhvort Ásvelli eða í Vodafonehöllina enda skemmtilegir heimavellir. Þó Haukar hafi átt sín bestu körfuboltaár í karlaflokki í Strandgötunni hefur kvennalið félagsins ekki verið feimið við að raka inn titlum að Ásvöllum.
 
Vodafonehöllin stendur svo á gömlum grunni að Hlíðarenda, nýtt og glæsilegt hús á gömlum stað. Aðkallaðir leikmenn Vals í bland við uppalinn þjálfara hjá félaginu eru nú komnir enn eina ferðina í baráttunni um laust sæti í úrvalsdeild. Óhætt er að segja að Valur hafi mátt bíta í það súra síðan þeir féllu en síðustu þrjú ár í röð hafa þeir tapað seríunni um laust sæti í úrvalsdeild.
 
Gengi Valsmanna í 1. deild frá því þeir féllu 2003
 
2009: Fjölnir 2-0 Valur (úrslit um laust sæti í úrvalsdeild)
2008: FSu 2-1 Valur (úrslit um laust sæti í úrvalsdeild)
2007: Stjarnan 2-1 Valur (úrslit um laust sæti í úrvalsdeild)
2006: Duttu út í undanúrlsitum
2005: Höttur 2-0 Valur (úrslit um laust sæti í úrvalsdeild)
2004: Duttu út í undanúrslitum
 
Mynd: Óskar Ingi Magnússon hefur leikið frábærlega með Haukum í vetur/[email protected]
 
Fréttir
- Auglýsing -