spot_img
HomeFréttirStyrmir Snær ekki meira með á NM

Styrmir Snær ekki meira með á NM

U18 landslið drengja hefur farið frábærlega af stað á Norðurlandamóti yngri landsliða sem fram fer í Finnlandi þessa dagana. Liðið hefur unnið fyrstu þrjá leikina en þrátt fyrir það hefur liðið orðið fyrir miklum skakkaföllum.

Bæði Dúi Þór Jónsson og Styrmir Snær Þrastarson meiddust í öðrum leik mótsins gegn Svíþjóð. Liðið lék því án þeirra lungann úr þeim leik og sátu svo hjá í dag er U18 liðið vann góðan sigur á Danmörku.

Samkvæmt Inga Þór Steinþórssyni þjálfara liðsins mun hafnarmaðurinn Styrmir Snær ekki leika meira með liðinu en hann varð fyrir vondum meiðslum. „Styrmir er alveg frá. Hann þarf að fara heim í aðgerð ef hann fær að fljúga heim.“

Meiri bjartsýni ríkir með Dúa Þór sem gæti verið með á morgun þegar liðið mætir Eistum. „Dúi fékk slæmt högg á hnéð og staðan er metin á hverjum degi. Þar sem við erum í Trabantsklúbbnum Skynsemin ræður létum við hann hvíla í dag.“

Styrmir Snær hefur verið virkilega öflugur í fyrstu tveimur leikjunum og er byrjunarliðsmaður í liðinu. Hann var með 9,5 stig og 5,5 fráköst að meðaltali í fyrstu tveimur leikjunum. Það er því mikill skellur fyrir liðið að missa hann en vonandi mun hann ná bata sem fyrst.

Fréttir
- Auglýsing -