spot_img
HomeFréttirStyrktarleikur í Borgarnesi í kvöld

Styrktarleikur í Borgarnesi í kvöld

 
Í dag, fimmtudaginn 30. desember verður styrktarleikur í íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi. Rósa Jósefsdóttir bóndi á Fjarðarhorni í Bæjarhreppi glímir nú við bráðahvítblæði. Framundan er löng sjúkrahúsvist í Svíþjóð þar sem Rósa þarf að gangast undir mergskipti. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu frá KKD Skallagríms.
Rósa bjó í mörg ár í Borgarnesi en hún og maður hennar, Sigurður Geirsson, hófu síðan búskap á Fjarðarhorni fyrir nokkrum árum. Eldri dóttir þeirra, Þorbjörg (Bobba), spilar með mfl. kvenna í Skallagrím og stundar nám í Menntaskóla Borgarfjarðar. Rósa og Siggi hafa verið dugleg að mæta á heimaleiki hjá mfl. kvenna og hvetja þær áfram. Körfuknattleiksdeildin vill leggja fjölskyldunni lið á einhvern hátt og blæs því til styrktarleiks fimmtudaginn 30. desember kl. 19.15 í íþróttahúsinu í Borgarnesi. Þar etja kappi ýmsar hetjur úr boltanum, þekktar og minna þekktar en allir vilja leggja málefninu lið.
 
Má nefna kappa eins og Pavel Ermolinski, Pál Axel, Tómas Holton, Val Ingimundarson, Birgir Mikaelsson Pétur Má, Eið Sig, Landann Gísla Einarsson og einhverjar fleiri kempur. Í hálfleik verður þriggja stiga keppni og óvænt atriði sem ekki má gefa upp.
 
Miðaverð er kr. 1.000 fyrir 16 ára og eldri eða frjáls framlög. Frítt fyrir 15 ára og yngri. Öll innkoma á leikinn rennur óskipt til Rósu og fjölskyldunnar.
 
Við hvetjum alla sem vettlingi geta valdið að koma og styðja við bakið á fjölskyldunni, létta sér upp í skammdeginu og koma og horfa á gæða körfubolta og eiga góða stund saman.

Styrktarreikningur á nafni Rósu Jósefsdóttur í Sparisjóðnum á Hvammstanga. Reikningsnúmerið er 1105-05-403500 og kennitalan er 021258-4669. 
 

Körfuknattleiksdeild Skallagríms
Fréttir
- Auglýsing -