12:24
{mosimage}
(Bobby Walker brýtur sér leið upp að körfu Njarðvíkinga)
Fimm leikir fara fram í Iceland Express deild karla í kvöld og hefjast þeir allir kl. 19:15. Mesta athygli vekur líkast til viðureign Íslandsmeistara KR og Njarðvikur í DHL-Höllinni en þetta er fyrsti deildarleikur millum liðanna síðan KR hampaði þeim stóra. Þá koma bikarmeistarar ÍR í heimsókn í Sláturhúsið og fá það vandasama verkefni að mæta funheitum Keflvíkingum.
Keflavík skellti Njarðvík í grannarimmu liðanna síðasta sunnudag og sitja þeir nú einir á toppi deildarinnar með 8 stig. ÍR sendi erlendu leikmenn sína heim á dögunum og mættu með alíslenskt lið gegn Skallagrím og höfðu þar góðan sigur í spennuleik. Ætli þeir sér að eiga eitthvert erindi á Suðurnesin í kvöld verða þeir að eiga glimrandi góðan leik gegn Keflavík sem virðast vera komnir í Íslandsmeistaragír. Þá hefur það skipt Keflavík miklu máli að fá Jón N. Hafsteinsson góðan en hann er að leika fantavel um þessar mundir og vinna mikla vinnu fyrir liðið. Jón hefur lengi verið að glíma við meiðsli og gjarn á að detta inn og út úr hópnum hjá Keflavík. Með hann í toppformi eru Keflvíkingar, eins og sést, á toppi deildarinnar.
{mosimage}
(Frá úrslitarimmu KR og Njarðvíkur í fyrra)
Rimmur Njarðvíkur og KR voru frábær skemmtun í úrslitum deildarinnar á síðustu leiktíð og verður leikur liðanna í Vesturbænum sýndur í beinni útsendingu hjá SÝN í kvöld. Útsendingin hefst kl. 19:05. Njarðvíkingar mega heldur betur bæta ráð sitt frá Keflavíkurleiknum ætli þeir sér að eiga eitthvert erindi í Íslandsmeistarana. Grænir lutu í gras á öllum sviðum íþróttarinnar gegn Keflavík á sunnudag en KR hefur líka tapað einum leik en það var hörkuleikur gegn Grindavík þar sem sigurinn gat fallið báðum megin í lokin.
Grindvíkingar mæta Tindastóli á Sauðárkróki en Stólarnir hafa komið verulega á óvart það sem af er leiktíðar með þremur sigrum og einum tapleik og hafa sama sigurhlutfall og Grindavík. Á dögunum fögnuðu Stólarnir 100 ára afmæli sínu og gáfu áhorfendum sigur gegn Skallagrím í framlengdum leik og sagði Svavar Atli Birgisson, leikmaður Tindastóls, í samtali við Karfan.is eftir leik að fullt hús og góð stemmning hefði vafalítið skilað þeim sigrinum.
Nýliðaslagurinn millum Stjörnunnar og Þórs fer fram í Ásgarði í kvöld en liðin eru sem stendur á botni deildarinnar með einn sigur og þrjú töp. Þór lagði ÍR í fyrstu umferð og Stjarnan hafði betur gegn Skallagrím í fyrstu umferð en síðan þá hafa liðin ekki náð að innbyrða stig. Það lið sem hefur sigur í kvöld í Ásgarði kemst uppfyrir hinn nýliðann og upp í miðja deild þar sem deildin er gríðarlega jöfn um þessar mundir og hvert stig mikilvægt.
Á heimasíðu Þórs má lesa magnaða upphitun Páls Jóhannessonar fyrir leikinn.
{mosimage}
(Verður hetjubragur á Áskeli Jónssyni í kvöld)
Skallagrímur-Fjölnir verður vafalítið athyglisverður leikur þar sem Skallarnir hafa valdið töluverðum vonbrigðum í upphafi leiktíðar og aðeins unnið einn leik. Sá leikur var í annarri umferð þegar Áskell Jónsson reyndist hetjan í Borgarnesi og gerði sigurkörfu leiksins. Sex lið eru í sömu stöðu í deildinni, með einn sigur og þrjá ósigra og er Hamar í þeim flokki. Þeir náðu ekki að vinna sigur í fyrstu fimm leikjum síðustu leiktíðar en náðu nú sigri strax í þriðju umferð en töpuðu svo stórt í þeirri fjórðu gegn Grindavík. Þeir sakna sárt Svavars P. Pálssonar sem glímir nú við axlarmeiðsli.
Fjölmennum á vellina í kvöld!



