spot_img
HomeFréttirStúlkurnar lögðu Dani örugglega - Leika um sæti á mótinu á morgun

Stúlkurnar lögðu Dani örugglega – Leika um sæti á mótinu á morgun

Undir 18 ára stúlknalið Íslands lagði Danmörku í dag í þriðja leik sínum á Norðurlandamótinu í Kisakallio, 68-55. Liðið því komið með tvo sigra og eitt tap, en lokaleikur þeirra er á morgun gegn Svíþjóð.

Gangur leiks

Íslenska liðið fór heldur hægt af stað í leik dagsins. Eftir fyrsta leikhluta var Danmörk með nokkuð þægilega 8 stiga forystu, 15-23. Þær íslensku mættu þó heldur betur til leiks í öðrum leikhluta, ná að vinna niður muninn og eru sjálfar 5 stigum yfir þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 34-29.

Í upphafi seinni hálfleiksins ná íslensku stúlkurnar að standa af sér nokkur áhlaup Danmerkur og fara með 11 stiga forystu inn í lokaleikhlutann með góðum flautuþristi frá Önnu Láru Vignisdóttur í lok þess þriðja, 53-42. Gera svo vel í þeim fjórða að sigla mjög svo öruggum 13 stiga sigri í höfn, 68-55.

Kjarninn

Eftir frekar erfiða byrjun í leiknum var Ísland betri aðilinn á flestum sviðum körfuboltans. Spiluðu ákafa vörn sem skilaði þeim tugum stolinna bolta, pössuðu sjálfar boltann vel á móti pressu Danmerkur og þá var skotnýting þeirra fyrir utan þriggja stiga línuna með besta móti. Eiga nú möguleika á að spila um sæti á mótinu gegn Svíþjóð á morgun, gætu endað í öllu frá fyrsta niður í þriðja sæti mótsins þegar þetta er skrifað, þó líklegast sé að leikur morgundagsins verði upp á annað sætið.

Tölfræðin lýgur ekki

Danmörk tapar 30 boltum í leiknum á móti aðeins 17 töpuðum hjá Íslandi. Af töpuðum boltum nær Ísland að setja 23 stig, en Danmörk aðeins 6 stig.

Atkvæðamestar

Elísabeth ýr Ægisdóttir var best í íslenska liðinu í dag, varnarlega frábær, en þá skilaði hún einnig 18 stigum, 6 fráköstum, 2 stoðsendingum og 5 stolnum boltum. Þá bætti Agnes María Svansdóttir við 16 stigum og 4 fráköstum.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Fréttir
- Auglýsing -