spot_img
HomeFréttirStuðningur og samstaða eru hátt skrifuð hjá mér

Stuðningur og samstaða eru hátt skrifuð hjá mér

 
Valur Ingimundarson um FSu og Akademíuna
 
Ferskir vindar blása nú um Iðu á Selfossi en FSu hefur ráðið Val Ingimundarson til félagsins þar sem hann mun stýra meistaraflokki félagsins í 1. deild á næstu leiktíð. Valur verður einnig yfirþjálfari yngriflokka og húsbóndi Akademíunnar sem starfrækt verður í Iðu í tengslum við Fjölbrautaskólann á Selfossi. Valur snýr nú aftur í þjálfarastólinn eftir eins árs hlé og hefur meðferðis einn efnilegasta leikmann landsins, son sinn Val Orra sem skipta mun frá Njarðvík yfir í FSu. Karfan.is ræddi við Val um nýja starfið og körfubolta í Árnessýslu.
Valur þjálfaði Njarðvíkinga í Iceland Express deild karla á þarsíðustu leiktíð og á undirbúningstímabilinu fyrir síðustu leiktíð uns hann sagði starfi sínu lausu sökum veikinda. Bróðir hans Sigurður tók þá við stjórnartaumunum í Ljónagryfjunni en nú þegar Valur er kominn af stað á nýjan leik lá þá ekki beinast við að þjálfa Njarðvíkinga á ný?
 
,,Nei nei, alls ekki. Siggi er frábær þjálfari þrátt fyrir að vera úr Keflavík,“ sagði Valur en gerðist þó öllu alvarlegri eftir þessa litlu sneið. ,,Njarðvíkingar eiga að vera stoltir af því að hafa Sigga við stjórnvölin enda er hann sigurvegari og ég er bara þrælánægður með stöðuna mína núna. Njarðvík er eina liðið í úrvalsdeild sem ég hefði tekið við en svo kom þetta upp á borðið með FSu og Akademíuna,“ sagði Valur sem áður hefur tekið að sér stór þjálfunarverkefni því á einum tíma var hann t.d. með alla yngri flokka hjá UMFN og hefur þjálfað marga flokka hjá bæði Tindastól og Skallagrím.
 
,,Ég verð með meistaraflokk FSu, unglingaflokk og drengjaflokk og þá verð ég einnig yfirþjálfari yngri flokkanna. Eftir síðustu leiktíð hafði FSu samband við mig og bað mig um að klára síðustu æfingarnar á tímabilinu þegar Rob Newson fór frá Selfossi. Ég ákvað að slá til og það varð ekki aftur snúið. Körfubolti er baktería og mjög fljótlega var áhuginn fyrir þessu á Selfossi orðinn brennandi. Maður má ekki byrja á neinu því þá verður maður að fara alla leið.“
 
Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir
Akademían verður áfram í samvinnu við Fjölbrautaskólann á Selfossi og svo framarlega sem leikmenn stundi nám við skólann eru þeir velkomnir í Akademíuna. Áður stýrði Brynjar Karl Sigurðsson Akademíunni en hans tíma á Selfossi er nú lokið og boðar Valur breyttar áherslur. ,,Ég mun taka inn breiðari hóp einstaklinga í Akademíuna og leggja hlutina upp á minn hátt, afreksmenn og aðrir körfuboltaiðkendur sem eru kannski styttra á veg komnir eiga að geta fundið sig í Akademíunni. Brynjar Karl gerði margt mjög gott á Selfossi en hlutirnir breytast þegar nýjir menn taka við stjórn. Allir sem vilja koma í Akademíuna fá aðgang á meðan húsrúm leyfir, við erum að færa út kvíarnar og þó körfuboltinn verði í brennidepli mun fagfólk einnig veita ráðgjöf og kennslu við akademíuna s.s. lyftingaþjálfarar og næringarfræðingar,“ sagði Valur en er hann smeykur við að fólk telji að Akademían reyni með þessu móti að lokka leikmenn úr nærsveitum til liðs við FSu?
 
,,Akademían hjá mér mun ekki standa undir því. Menn verða að ráða því algerlega sjálfir hvar þeir spila, vissulega mun ég vera í góðu sambandi við aðra þjálfara sem hafa leikmenn í Akademíunni en það verður ekki reynt að krækja í einn eða neinn,“ sagði Valur en hver er þá hagur Akademíunnar í því að þjálfa leikmenn annarra liða?
 
,,Hér eru eingöngu körfuboltaleg sjónarmið á ferðinni, það er hagur í því að leikmenn hitti kollega sína úr öðrum liðum, æfi saman og mætist í leik á æfingum og séu þannig ekki alltaf að spila á móti sömu leikmönnum æfingu eftir æfingu. Mörgum af þessum iðkendum vantar fjölbreytni á æfingar og það er einn af kostunum við Akademíuna. Iðkendurnir sjá fleiri hluti í körfuboltanum, kynnast nýjum þjálfurum og geta unnið í þáttum sem vantar upp eða laga þarf í þeirra leik,“ sagði Valur en áréttaði: ,,Ég er fyrst og fremst að fara austur til þess að vinna fyrir FSu og þar kemur Akademían inn í myndina og hún er fyrir alla,“ sagði Valur og þar eiga konurnar ekki að vera undanskyldar.
 
,,Við erum að reyna að koma af stað kvennakörfubolta á Selfossi og setja á laggirnar Akademíu fyrir stelpur. Þetta er allt á byrjunarstigi en við horfum á alla Árnessýslu og helst allt landið en til þess að fá inn í Akademíuna þarftu að vera nemandi við Fjölbrautaskólann á Selfossi.“ 
 
Áhuginn liggur í að búa til körfuboltafólk
,,Ég tel mig vera mjög heppinn að geta haft körfubolta að aðalstarfi og ég hef alltaf haft mikinn áhuga á því. Ég er búinn að gera flest allt sem hægt er að gera í körfubolta á Íslandi og nú liggur mitt áhugasvið í því að búta til körfuboltafólk, hjálpa fólki að verða betra og kenna því að bæta sig sem leikmenn, þar liggur mitt stolt í dag,“ sagði Valur sem hyggur þó ekki á útgáfu á kennsluefni tengdu körfuknattleik. ,,Ég hef fastmótaðar skoðanir á því hvernig skuli gera hlutina en vonandi stígur einhver fram í nánustu framtíð sem tekur til í þessum málum.“
 
FSu
Á síðustu leiktíð féll FSu úr Iceland Express deild karla og mátti þola marga stóra ósigra. Liðið leikur því í 1. deild á næsta tímabili en hvaða áherslur verða á oddinum fyrir þennan vetur?
 
,,Við ætlum að gera þetta á þeim forsendum að starfsemi félagsins nái að festa rætur, leita til krakkanna á Selfossi og fá þau inn í starfið og af því tilefni munum við t.d. halda þrjú frí námskeið í sumar fyrir krakka á aldrinum 8-12 ára. Við erum fyrst og fremst að reyna að auka veg körfuboltans en ekki á leið í keppni við einn eða neinn um eitt eða neitt,“ sagði Valur en sér hann mörg efni á svæðinu?
 
,,Körfuboltinn hefur alltaf verið stór í Árnessýslu, ég man að eitt sinn voru 25 lið í HSK móti í körfubolta, hann er allstaðar í Árnessýslu og margir góðir leikmenn hafa komið þaðan, nefni t.d. Lárus Jónsson og fleiri. Metnaðurinn er úti um allt og ég þekki þetta enda ólst ég þarna upp til 15 ára aldurs og þekki það að aðstöðuna hefur löngum vantað en nú hefur orðið breyting á og möguleikarnir á því að verða toppíþróttamaður úr Árnessýslu eru fyrir hendi,“ sagði Valur en á komandi leiktíð verða þungar byrgðar settar á unga leikmenn.
 
,,Það eru strákar fæddir 92-95 sem hafa mikinn áhuga, þetta er um 12 manna hópur sem er mjög áhugasamur og það verður byggt í kringum þennan hóp. Það er kominn þokkalegur hópur sem byggja þarf í kringum og þeir þurfa að leiða starfið enda mjög áhugasamir piltar hér á ferðinni. Það verða einhverjar breytingar á meistaraflokknum en það verða engar sprengjur og við munum fara rólega í hlutina og festa rætur í öllu okkar starfi. Það eru nokkrir leikmenn sem hafa sýnt áhuga á því að koma og vonandi verðum við með samkeppnishæft lið,“ sagði Valur sem mun hafa aðstetur á Selfossi en búa áfram í Reykjanesbæ.
 

Valur Orri með í för

Sonur Vals og nafni, Valur Orri, fer með pabba sínum austur fyrir fjall og hverfur frá Njarðvíkurliðunum í yngri flokkum þar sem hann var gríðarlega sigursæll síðustu tvö árin. ,,Hann dauðlangar að fara með mér sem er mjög skiljanlegt en það er ekki svo að skilja að honum líki ekki vel í Njarðvík enda sigursæll þar og í landsliðinu. Hann dreymir um að komast í akademíu og geta fengið að æfa á daginn. Við höfum heyrt af strákum í akademíum sem hafa tekið miklum framförum og Valur hefur metnað til að gera þetta og verður í námi við FSu í vetur. Hann á 11. flokk eftir en verður leikmaður FSu í drengja-, unglinga- og meistaraflokki. Hann fær nóg af mínútum í 1. deildinni en er bara 16 ára gamall svo það má setja spurningamerki við hvort skrokkurinn sé tilbúinn núna fyrir átök í úrvalsdeild. Hann langar til að gera þetta þó svo síðasta ár í Njarðvík og með landsliðinu hafi verið nánast fullkomið og verður varla toppað í bráð. Ætli það sé ekki bara pabbinn sem trekkir… og kannski akademían,“ sagði Valur sposkur en hvað ætlar hann að setja á oddinn í leik FSu á komandi tímabili?
 
,,Ég vil alltaf að það sé hugsun í gangi, strákarnir verða að vera viðbúnir því að læra nýja hluti og við spilum þetta bara eftir liðinu sem við höfum. Það verður allavega ekki leiðinlegur körfubolti, þetta verður bara gaman og ekki í boði að hafa nein leiðindi í gangi. Það er metnaðarmál hjá mér að menn geti horfti til baka og sagt að þetta hafi verið skemmtilegur tími. Þannig minnist ég t.d. ára minna í Njarðvík. Maður fékk mikinn stuðning, það var alltaf gaman og maður var alltaf velkominn sem gerði manni kleift að taka framfaraskref. Þetta eru ógleymanlegar minningar og mikilvægar fyrir mig sem íþróttamann. Þetta er eitthvað sem allir íþróttamenn eiga að ganga í gegnum, finna stuðning og samstöðu en þessi tvö atriði verða hátt skrifuð hjá mér.“
 
Fréttir
- Auglýsing -