spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaStuð og stemning á Hlíðarenda

Stuð og stemning á Hlíðarenda

Margt var um manninn í Origo – höllinni í kvöld er Grindvík sótti Val heim á Hlíðarenda. 217 manns voru á leiknum og margir Grindvíkingar mættir í stúkuna að sjá sitt lið á útivelli. Ljóst var fyrir leik að stemningin yrði í hávegum höfð í hlýju Valsheimilins á köldu októberkvöldi. Dómarar leiksins voru þeir Sigmundur Már Herbertsson, Jóhann Guðmundsson og Aron Rúnarsson.

Í upphafi leiks var dálítill kuldi í báðum liðum og voru margir tapaðir boltar á fyrstu mínútunum. Valsarar fóru þó að hitta betur úr skotum sínum utan af velli eftir því sem leið á leikhlutann og voru einnig að ná sóknarfráköstum og skora úr aukasóknum. Pablo Bertone stýrði sókn Vals vel eftir að þeir höfðu jafnað sig á kulda upphafsins, en hann skoraði fyrstu 5 stig Valsmanna og góð byrjun var fyrirboði fyrir frammistöðu hans, en hann lauk leik með 22 stig og 5 stoðsendingar. Þegar tvær mínútur voru til loka leikhlutans sóttu Valsmenn hart að Grindvíkingum og gerðu 9-0 áhlaup til að ljúka leikhlutanum. Vörn og sókn Grindvíkinga fór í uppþot eftir að Ivan Aurrecoechea og Kristin Pálsson voru teknir af velli. Grindvíkingar höfðu verið að sækja sín stig eftir góða boltahreyfingu og sendingar inn í teig á Ivan, sem ýmist skoraði, fiskaði villur eða gaf boltann út fyrir teig á opna menn fyrir utan teig, en Grindavík náði ekki að refsa Val og skora eftir stolna bolta, en það hafði Valsmönnum tekist að gera í áhlaupi sínu. Staðan í lok 1. leikhluta var 19 – 11 fyrir heimamenn.

Áhlaup Valsara álengdist í upphafi annars leikhluta eftir mjög hraða byrjun og komust þeir í stöðuna 29 – 16 eftir þriggja mínútna leik. Eftir leikhlé Grindvíkinga ætluðu Valsarar alls ekki að gefa eftir og byrjuðu að pressa þá allan völlinn, en Grindvíkingar skoruðu í tveimur sóknum í röð, sem reyndist vera reiðarslag fyrir Valsmenn og þeir tóku leikhlé í stöðunni 29 – 21. Eftir leikhléið virtust Valsmenn ætla að gefa í, en þegar þeir komust í stöðuna 37 – 27 eftir hörkuþrist frá Sveini Búa Birgissyni, töpuðu þeir þremur boltum á tveimur mínútum undir lok leikhlutans og tókst Grindvíkingum að gera 9 – 0 áhlaup undir forrystu Ivans. Enn annar tapaður bolti á kostnað Grindvíkinga í blálok hálfleiks endaði í hraðaupphlaupi þar sem Callum Reese Lawson skoraði úr öruggu sniðskoti. Hálfleikstölur 39 – 36 og ljóst að nú stefndi í alvöruleik. Ivan skilaði skrímslatölum í fyrrihálfleik, en hann leiddi stigaskor Grindvíkinga með 11 stig auk 9 frákasta og 5 stoðsendinga. Bertone leiddi Valsara í hálfleik með 12 stig og 3 stoðsendingar.

Valsarar fóru virkilega vel af stað í seinni hálfleik og gerðu strax 12 – 2 áhlaup. Það kviknaði loksins í neti heimamanna þar sem þeir fóru að taka fleiri þrista og hitta úr fleiri þristum, og litla von virtust Grindvíkingar eiga eftir dapra byrjun seinni hálfleiks. Kristófer Acox hélt áfram að taka sóknarfráköst og skora úr sniðskotum, en eftir 100% nýtingu utan af velli (3/3) í fyrri hálfleik, hélt hann þeirri vegferð áfram og var ennþá með fullkomna nýtingu eftir 6 skot. Auk þess var hann mjög öflugur í vörninni, ásamt Hjálmari Stefánssyni, sem lauk leik með 3 stolna bolta og 2 varin skot. Lawson stal einnig þremur boltum. Valsmenn neyddu Grindvíkinga í erfiðar sendingar og marga tapaða bolta í 3. leikhluta. Grindvíkingar töpuðu þá 5 boltum og litu illa út fyrir byrjun 4. leikhluta, en Valur fór inn í lokaleikhlutann með 14 stiga forskot eftir að hafa unnið 3. leikhluta með 9 stigum, 24 – 13.

Grindvíkingar voru fjarri því að vera hættir og byrjuðu leikhlutann á glæsilegu þriggja stiga skoti frá Kristni Pálssyni, eftir stoðsendingu frá Naor Sharabani, en þeir tveir fóru á kostum í 4. leikhluta, ásamt Ivani.

Þeim tókst hægt og rólega að saxa á forrystuna og loksins hrökk Ólafur Ólafsson í gang, þegar 5 mínútur voru eftir leiks og hitti þrist og minnkaði muninn í 8 stig, 72 – 64. Bæði lið klúðruðu skotum og töpuðu boltum næstu tvær mínúturnar þar til Bertone sjálfur kom Val 11 stigum yfir þegar 3 mínútur voru eftir. Grindvíkingar fóru að gefa í undir handleiðslu Kristins Pálssonar, sem setti þrjú 3ja stiga skot í 4. leikhluta, þar af mjög mikilvægan þrist til þess að minnka muninn í 3 stig þegar 38 sekúndur voru eftir leiks, 79-76. Valsmenn fóru þá í sókn og náðu ekki að skora úr flotskoti Kára Jónssonar. Grindvíkingar náðu varnarfrákasti og brunuðu í sókn, en Valur átti eina villu eftir í bónusinn og brutu á þeim.

Eftir leikhlé Grindavíkur ákvað Valur að brjóta á Naor Sharabani, sem tókst að klikka úr fyrsta vítinu og setti aðeins niður hið seinna. Valur tók þá leikhlé og náði að gefa boltann á Bertone í innkastinu, sem skundaði öruggur á vítalínuna og kláraði leikinn fyrir Val. Lokatölur 81-77 fyrir heimamenn á Hlíðarenda.

Valur hefði átt að klára þennan leik fyrr og spara dramatíkina, þó að hún hafi reynst áhorfendum hin mesta skemmtun. Valur gaf eftir í 4. leikhluta og leyfði Grindavík að komast inn í leikinn. Grindavík náðu vissulega að taka sig til í 4. leikhluta og spiluðu af svipaðri yfirvegun og þolinmæði eins og í 2. leikhluta, þar sem sóknin flæddi í gegnum Ivan inni í teig, en Valsmenn spiluðu undir getu í kvöld.

Lykilmenn Vals í þessum leik voru Pablo Bertone (22/3/5 og 19 framlagspunktar) og Kristófer Acox (12/9 með 66% nýtingu og 19 framlagspunkta)

Lykilmenn Grindavíkur voru svo Ivan Aurrecoechea, sem átti sannkallaðan skrímslaleik (23/17/6 og 35 framlagspunktar) og Kristinn Pálsson (20/3/3, 6/8 í þristum og 20 framlagspunktar).

Tölfræði leiks

Myndasafn (Guðlaugur Ottesen)

Umfjöllun / Oddur Ólafsson

Fréttir
- Auglýsing -