spot_img
HomeFréttirStórt skref Hauka í úrslitakeppnina

Stórt skref Hauka í úrslitakeppnina

Haukar fengu Hamar í heimsókn í Schenkerhöllinni í dag í 25. umferð Dominosdeildar kvenna. Fyrir leikinn í dag voru Hamarsstúlkur búnar að tryggja sér viðverurétt í úrvalsdeildinni að ári og áttu ekki möguleika á því að blanda sér í baráttuna um sæti í úrslitakeppninni og því í raun að litlu að keppa fyrir þær. Sú var ekki raunin með Hauka þar sem þær eru að berjast um að halda þriðja sætinu og jafnframt sæti í úrslitakeppninni þar sem þær eru með Grindavík og Val andandi ofan í hálsmálið á sér.
Haukar fóru með þónokkuð öruggan sigur af hólmi í dag er þær unnu Hamar 86-44 þar sem hin nánast ofurmannlega Lele Hardy átti ofur-mega-skrímsla leik en hún skoraði 38 stig, tók 25 fráköst, stal boltanum 8 sinnum og gaf 5 stoðsendingar eða samtals 63 framlagsstig. Sem bætir stórleik hennar síðan í nóvember á móti KR um 2 framlagsstig sem fór notabene í framlengingu og spilaði Hardy tæpar 42 mínútur í honum en í dag lék hún rétt undir 30 mínútur.
 
 
Þórunn Bjarnadóttir
Annars fór leikurinn frekar einkennilega af stað en það liðu þrjár og hálf mínúta áður en skorað var úr opnum leik þegar Þórunn Bjarnadóttir jafnaði fyrir gestina 2-2. Liðin hittu skelfilega illa og þá sérstaklega gestirnir sem voru með hræðilega 10% skotnýtingu eða 2 af 20. Haukar voru litlu skárri en þær settu 7 af 22 skotum sínum. Haukar leiddu að loknum fyrsta leikhluta 21-6 þar sem Lele Hardy skoraði 13 stig og tók 8 fráköst.
 
Sydnei Moss
Sydnei Moss komst í gang í öðrum leikhluta þar sem hún skoraði 15 stig og tók 6 fráköst. Tókst henni einni og sér að rífa skotnýtungu Hamars upp um 300%. Hún sprengdi sig þó við það og skoraði hún aðeins 1 stig það sem eftir lifði leiks. Hamar unnu leikhlutann 17-16 en Haukar leiddu með 14 stigum í hálfleik í stöðunni 37-23.
 
Þóra Kristín Jónsdóttir átti góða innkomu fyrir Hauka í þriðja leikhluta þar sem hún skoraði 7 stig. Hardy skoraði restina af stigum Hauka í leikhlutanum sem þær unnu 20-12.
 
Dýrfinna Arnardóttir stal síðan senunni í fjórða leikhluta er hún fór á kostum þar sem hún skoraði 13 stig og stal knettinum þrívegis.
 
 
 
Rósa Björk Pétursdóttir á afmæli í dag og óskar Karfan.is henni til hamingju með daginn.
Fréttir
- Auglýsing -