spot_img
HomeFréttirStórspennu sigur hjá Völsurum

Stórspennu sigur hjá Völsurum

11:56 

{mosimage}

 

 

Valsmenn tóku í gær forystu í úrslitaeinvíginu um laust sæti í Iceland Express deildinni að ári með góðum sigri á Stjörnunni, 80-77 í Íþróttahúsi Kennaraháskólans í hnífjöfnum og æsispennandi leik sem gladdi sannarlega augað.

Eins og áður sagði var leikurinn hnífjafn en lítið var skorað framan af fyrsta leikhluta, fyrsta karfan kom eftir þriggja mínútna leik og eftir sex mínútur var staðan jöfn 5-5 en skotnýting liðanna var með versta móti í upphafi leiks.  Liðin bitu þó í skjaldarrendur í lok fjórðungsins og eftir stórglæsilega flautukörfu Zachary Ingles sem var skoruð nær miðju en þriggja stiga línunni leiddi Valur 20-16.

 

Annar fjórðungur byrjaði heldur brösulega hjá Stjörnumönnum en þeir gerðu mörg tæknimistök, meðan Valsmenn juku forskotið en þegar líða tók á leikhutann skelltu Stjörnumenn í lás í vörninni, héldu þriggja stiga veislu og komust yfir 41-39 þegar skammt var eftir en Zach Ingles náði að jafna með sniðskoti áður en flautan gall og liðin því jöfn í hálfleik 41-41.

 

Seinni hálfleikur byrjaði eins og sá fyrri.  Lítið var skorað og mörg tæknileg mistök voru gerð á báða bóga.  Mikið jafnræði var með liðunum  í fjórðungnum, en Valsmenn virtust örlítið einbeittari og enduðu fjórðunginn með tveggja stiga forskot, 58-56.

 

Stjörnumenn komu vel stemmdir í fjórða leikhluta og komust í góða forystu en Valsmenn voru aldrei langt undan og með Zachary nokkurn Ingles í broddi fylkingar komust Valsarar yfir en kappinn sá var sjóðandi heitur og setti niður körfur í öllum regnbogans litum og var eins og hann væri að kasta pílum í hafið, svo góð var skotnýting hans.  Valsmenn náðu þó aldrei að hrista Stjörnumenn alveg af sér og Kjartan Kjartansson átti möguleika á að  jafna metin þegar brotið var á honum í þriggja stiga skoti, en eitt vítið geigaði og Valur leiddi því með einu stigi þegar sex sekúndur voru eftir.  Stjörnumenn settu upp pressu sem virkaði ekki betur en svo að Matteo Cavallini fékk boltann og villu og þar með tvö vítaskot sem hann setti niður af miklu öryggi og Valsmenn því með þriggja stiga forskot og Bragi Magnússon þjálfari Stjörnunnar tók leikhlé.  Stjörnumenn settu upp fyrir þriggja stiga skot og barst boltinn til Jóns Magnússonar sem tók erfitt skot sem geigaði, boltinn dansaði á hringnum en vildi ekki ofan í og það voru því Valsmenn sem hrósuðu sigri í æsispennandi leik.

 

Stigahæstur Valsara var Zach Ingles sem skoraði 39 stig en hjá Stjörnunni voru atkvæðamestir Ben Bellucci með 26 stig og Sigurjón Lárusson með 13 stig en Sigurjón var einnig mjög sterkur í fráköstum og hirti fjölmörg, bæði í vörn og sókn. Þá átti Ottó Þórsson einnig góðan dag í liði Stjörnunnar með 18 stig.

 

Næsti leikur liðanna fer fram í Ásgarði mánudaginn 2.apríl klukkan 19:15 og geta Valsmenn tryggt sér sæti í Iceland Express deildinni að ári liðnu með sigri.

 

Texti: Elías Guðmundsson

 

Fréttir
- Auglýsing -