spot_img
HomeFréttirStórskipti í aðsigi?

Stórskipti í aðsigi?

10:13:00
{mosimage}Leikmannaskiptaglugginn í NBA lokar á fimmtudaginn og er fastlega búist við því að stórtíðinda sé að vænta, enda eru fjölmörg lið að reyna að skera niður launapakkann hjá sér og nokkur af stærri liðunum eru að finna leiðir til að bæta við leikmanni sem gæti gert þá að meisturum. Þá má ekki gleyma því að mörg lið eru að búa í haginn fyrir sumarið 2010 þegar önnur hver stórstjarna deildarinnar verður með lausan samning og þá ríður á að eiga nóg pláss undir launaþakinu.

Ítarleg umfjöllun um hugsanleg leikmannaskipti hér að neðan…

Nú þegar hafa Miami og Toronto skipst á leikmönnum þar sem Shawn Marion fór norður fyrir landamærin á meðan Jermaine O‘Neal fer í sólina á Florida. Þau skipti snerust aðallega um að Marion var ekki að virka vel hjá Miami, sem þurfti miðherja. O´Neal er líka með samning sem rennur út eftir næsta tímabil og gefur liðinu sveigjanleika til að annaðhvort fá til sín sterkan leikmann á lausum samningi, eða skera niður launapakkann.

Næstu daga er búist við að símarnir verði rauðglóandi hjá öllum framkvæmdastjórum í deildinni og hafa augu manna helst beinst að Phoenix Suns. Eins og fram hefur komið hér á Körfunni.is er eigandi Suns, Robert Sarver að leita logandi ljósi að liðum sem vilja skipta fyrir Amare Stoudamire. Það verður að segjast að Sarver hefur farið fram með fínleika fílstarfs í postulínsbúð þar sem hann hefur virkað örvæntingarfullur við að bjóða leikmanninn út um allt. Raunar eru allir leikmenn liðsins á skiptiborðinu nema Steve Nash, en forsvarsmenn annarra liða vita nú að þeir þurfa ekki að sprengja bankann til að fá Stoudamire. Leikmaðurinn játaði sjálfur um helgina að hann hefði ekki hugmynd um hvar hann myndi enda og furðaði sig á þessari atburðarás. Hann sagðist líka efast um að Sarver væri yfir höfuð vel að sér í körfubolta. Ef allt fer á versta veg, verður Stoudamire áfram hjá Suns, mórallinn í herbúðum þeirra verður í molum það sem eftir er tímabilsins og Stoudamire verður enn minna virði í sumar.

Annar leikmaður sem er sterklega orðaður við önnur lið er miðherjinn Marcus Camby hjá LA Clippers, en hann er einn af bestu varnarmönnum og frákösturum deildarinnar. Vitað er af áhuga Cleveland til að fá hann í sínar raðir og verða þar með síðasta púslið í meistaraliðið sem gæti talið LeBron James á að framlengja samning sinn við liðið. Clippers eru með þrjá rándýra leikmenn, Camby, Zach Randolph og Chris Kaman, sem eru að keppa um tvær stöður undir körfunni og verða að losa einn þeirra og er mest ásókn í Camby. Cleveland eru búnir að bjóða Wally Szerbiak, stórskyttu sem er með stóran semaning sem rennur bráðlega út, en Clippers eru að athuga hvort þeir fái ekki eitthvað betra, eða einhvern til að taka Kaman, sem hefur verið meiddur í allan vetur.

Portland er með einn efnilegasta mannskap í deildinni en eru um leið í góðri stöðu til að skipta þar sem þeir eru með Raef LaFrentz á launaskrá og stór samningur hans rennur út eftir tímabilið. Þeir ætla að bæta framherjanum Travis Outlaw í pakkann og sjá hvort þeir fái ekki einhvern góðan leikmann með reynslu sem getur nýst ungstjörnunum sem fyrir eru.

Vince Carter hefur verið að leika með eindæmum vel á tímabilinu, en er með stóran samning við New Jersey og er kominn á sólsetursár ferils síns. Nets eru því að hugsa um að losa leikmanninn  á meðan hann er enn verðmætur, en heitasta sagan um hann er að hann sé á leið til Dallas fyrir Josh Howard og Jerry Stackhouse. Það yrði gott sparnaðarráð hjá Nets, en gæti orðið gæfuspor fyrir Dallas sem missti nýlega Jason Terry í meiðsli og þarf fleiri menn til að bakka Dirk Nowitzki upp í stigaskoruninni.

Loks má nefna Chicago Bulls sem hafa á stundum verið skelfilegir í vetur þó þeir hafi rétt lítillega úr kútnum að undanförnu. Þeir eru með urmul af góðum, ungum leikmönnum sem hafa ekki náð að smella saman sem lið og eiga því mikinn efnivið í feit leikmannaskipti. Tyrus Thomas og Drew Gooden (sem er með stóran samning sem rennur brátt út) eru mögulega á leið þar út, en nafn Kirk Hinrich hefur líka heyrst þar sem nýstirnið Derrick Rose er framtíðarleikstjórnandi liðsins.

Fylgist með hér á Körfunni.is

ÞJ

Fréttir
- Auglýsing -