Það voru Njarðvíkurstúlkur sem komu sáu og sigruðu lánlaust lið Snæfells í kvöld með 74 stigum gegn 52 í Ljónagryfjunni í Iceland Express-deild kvenna. Njarðvíkurstúlkur fóru hamförum í fyrri hálfleik þar sem þær héldu gestum sínum i 25 stigum og höfðu þá náð 20 stiga forskoti. Það réðu gestirnir ekki við og því var sigurinn grænn að þessu sinni.
Strax frá upphafsmínútu leiksins virtust það vera heimastúlkur sem voru töluvert hungraðari í sigur. Gamla kempan Auður Jónsdóttir opnaði leikinn með fallegum þrist en gestirnir svöruðu fljótt fyrir sig. Þegar síga tók á fyrsta fjórðung fór munurinn að aukast á liðunum og voru heimastúlkur strax komnar í 11 stiga forskot.
Heimastúlkur héldu áfram sama dampi í öðrum leikhluta og var Shantrell Moss erlendi leikmaður þeirra að sína gríðarlega elju og dugnað ásamt því að vera grimm í skorun hjá liðinu. Gestirnir voru nánast meðvitundalausar og Kristi Green í raun eina þeirra sem sýndi einhver lífsmörk. Ingi Þór Steinþórsson þjálfari gestanna rauk til klefa síns í hálfleik ösku reiður og hefur eflaust verið með einhver vel valin orð fyrir sína leikmenn.
Í seinni hálfleik héldu hinsvegar heimastúlkur áfram að þjarma að gestunum og komust mest í 28 stiga forskot. Gestirnir náðu hinsvegar að laga það og var munurinn aftur komin fljótlega í þessi 20 stig. En lengra náðu gestirnir ekki að koma muninum niður og var það því stórsigur heimastúlkna sem leit dagsins ljós.
Sem fyrr segir var Shantrell Moss að sína gríðarlegan dugnað á tímum í leiknum og 30 stig og 15 fráköst !! Ólöf Helga Pálsdóttir kom henni næst með 15 stig. Hjá gestunum var það sem fyrr segir Kristi Green sem skoraði 29 stig og aðrir minna. Það munaði hinsvegar hjá gestunum að þessu sinni að þeirra framlagshæsti Íslenski leikmaður, Berglind Gunnarsdóttir sat á bekknum en í vikunni kom í ljós að hún er með slitið krossband og því óvíst hvort hún komi til með að leika meira á þessu tímabili.
Viðtöl á karfan TV