Breiðhyltingar fengu Haukamenn í Hellinn í kvöld í þriðju umferð Dominos-deildarinnar. ÍR lágu á útivelli gegn KR í síðustu umferð, eftir baráttusigur á Skallagrím á heimavelli í þeirri fyrstu. Gestirnir töpuðu naumlega gegn Grindavík í annarri umferð en unnu Val í opnunarleik tímabilsins. Báðir leikirnir voru á heimavelli Hauka.
Haukar byrjuðu leikinn af krafti og Terrence Watson átti þeirra fyrstu 6 stig, þar af fjögur úr troðslum. Virtust gestirnir ætla að taka yfirhöndina en heimamenn tóku það ekki í mál og með heitum skothöndum Sveinbjörns Claessen og Matthíasar Orra Sigurðarsonar komu heimamenn sér fljótt í 11 stiga forskot. Björgvin Hafþór Ríkharðsson var ferskur í gegnumbrotunum fyrir heimamenn. Upp úr miðjum leikhlutanum fóru vindar að berast í segl Hauka og forskot heimamanna hvarf skyndilega, til að toppa endurkomu gestanna setti Kári Jónsson niður flautuþrist rétt innan við miðju, en hann átti eftir að koma við sögu í þessum leik svo um munaði.
Heimamenn voru kaldir allan annan leikhlutann. Eftir rúmlega 2 mínútna leik voru Haukar komnir þremur yfir og haldið ÍR stigalausum. Lítið sem ekkert virtist ganga upp hjá heimamönnum sem voru enn án stiga eftir 4 mínútna leik. Haukar virðast ætla að stinga af og komast ÍR-ingar loksins á stigatöfluna eftir tæplega 6 mínútna leik, þá komnir 9 stigum undir og því 20 stiga sveifla. Óreiðan var alger í leik heimamanna og einkenndist leikur þeirra af tilviljanakenndum flýtibolta og klaufaskap. Allt gekk Haukum í vil og mátti segja að hringurinn þeirra megin hafi verið fjórfallt stærri en hringur heimamanna en þar fyrir utan var frákastavilji heimamanna ekki mikill í þessum viðsnúning gestanna.
Haukar tóku annan leikhluta 28-10 og staðan í hálfleik 40-54. Fyrrnefndur Kári reyndist ÍR-ingum erfiður í þessum fyrri hálfleik og var með tvo stolna bolta á skömmum tíma sem dæmi, ásamt því að moka inn stigum í slagtogi við þá Watson og Hauk Óskarsson. Hjá ÍR voru þeir Sveinbjörn og Matthías atkvæðamestir með 16 og 15 stig.
Haukar hófu þriðja leikhlutann á sama dampi og þeir enduðu fyrri hálfleik og juku á forskot sitt smám saman. Watson bætti enn einni troðslunni í safnið en Sveinbirni leist ekki á blikuna fyrir ÍR með þrist reyndi hann að pumpa lífi og krafti í sína menn, sem virtist ætla að takast. Við tók áhlaup heimamanna þar sem þeir söxuðu jafnt og þétt á gestina með gegnumbrotum og söfnuðu Haukamenn villum en undir lok þriðja leikhluta voru þeir rauðklæddu búnir að ná áttum og svo gott sem búnir að stöðva blæðinguna. Munurinn 18 stig eftir leikhlutann.
Fjórði leikhluti hófst á annarri áhlaupstilraun heimamanna og minnkuðu muninn í 13 stig en leikur þeirra var samt ennþá tilviljunnarkenndur og óskipulagður. Haukar voru heppnari, en skot þeirra virtust rata niður hvar sem þeir skutu honum, en um leið var leikur þeirra líka þéttari. Von heimamanna smám saman fjaraði út er Haukar stálu boltum, hirtu fráköstin við nefin á þeim, tóku hraða spretti í átt að körfu heimamanna og bitu loks ÍR frá sér. Það voru þeir Haukur og Kári sem eignuðu sér leikinn um miðjan hálfleikinn og gerðu út um leikinn er þeir komu forskoti Hauka aftur yfir 20 stigin, við mikinn fögnuð stuðningsmanna gestanna. Varamenn og ungliðar liðanna fengu að klára leikinn, þar sem hann var löngu unninn af hálfu Hauka. Lokatölur 87-113.
Þeir Kári Jónsson, Haukur Óskarsson og Terrence Watson voru klárlega menn leiksins. Terrence var stigahæstur með 29 stig og 11 fráköst. Kári setti niður 6 af 6 þriggjastiga tilraunum sínum og endaði með 28 stig og 2 stolna bolta. Haukur var með 25 stig.
Hjá ÍR var Matthías Sigurðarsson með 33 stig og 9 fráköst og Sveinbjörn Claessen með 21 stig.
Umfjöllun/ Arnar Freyr Böðvarsson
Mynd úr safni/ Axel Finnur – Svavar Elífðarvél Pálsson og Haukar voru með læti í Hertz-hellinum í kvöld.



