spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaStórsigur Grindavíkur

Stórsigur Grindavíkur

Í gær áttust við Grindavík og Stjarnan í 1.deild kvenna og var þetta seinasti leikur liðanna áður en úrslitakeppnin hefst í næstu viku. Grindavík var búið að tryggja sér 3. sæti í deildinni en Stjarnan átti enn möguleika á að ná 4. sæti og þá heimavallarétt í 8. liða úrslitum.

Það var þó fljótt ljóst hvert stefndi og var staðan eftir 1. leikhluta 21-7 fyrir Grindavík. Stjarnan barðist af miklum krafti en hæfileikarnir í Grindavíkurliðinu voru einfaldlega töluvert meiri. Stjarnan náði að bæta sóknarleikinn sinn aðeins í 2. leikhluta sem endaði þó 24-16 fyrir Grindavík. Svo í 3. leikhluta kláraði Grindavík leikinn algjörlega er þær unnu leikhlutann með 20 stigum og var aðeins spurning hversu stór sigurinn yrði og endaði leikurinn 101-55.

Það má segja að Grindavík sé komið í úrslitakeppnisgír eftir þennan leik. Þótt liðið sé með erlendan leikmann í sínu liði eru það efnilegar heimastúlkur sem mynda kjarnan í þessu efnilega liði. Hekla Eik Nökkvadóttir átti enn einn stórleik með 21 stig, 12 fráköst og 11 fráköst, Hulda Björk Ólafsdóttir var með 25 stig og Jenný Geirdal átti flottan leik með 14 stig og 6 fráköst.

Hjá Stjörnunni voru Alexandra Eva Sverrisdóttir og Bergdís Lilja Þorsteinsdóttir yfirburðaleikmenn. Alexandra var með 24 stig, 8 fráköst og 9 fiskaðar villur og Bergdís með tvöfalda tvennu, 15 stig og 16 fráköst ásamt 4 stoðsendingum. Aðrir leikmenn eiga þó hrós skilið þar sem liðið var vel stemmt og þrátt fyrir yfirburði Grindavíkur gáfust þær aldrei upp og börðust af miklum krafti ásamt því að hvetja hvor aðra áfram. Virkilega til fyrirmyndar.

Bæði lið eru komin í 8 liða úrslit eins og öll lið í 1.deildinni en óljóst er hvaða lið mætast þar til allir leikir umferðarinnar klárast síðar í dag.

Tölfræði leiks

Umfjöllun / Bryndís Gunnlaugsdóttir

Fréttir
- Auglýsing -