09:22:23
Cleveland tapaði í nótt öðrum leiknum í röð þegar þeir lágu óvænt fyrir vængbrotnu liði Indiana Pacers, 95-96. LeBron James var með 47 stig, en það dugði ekki til því að Pacers höfðu betur á hreint ótrúlegri lokasekúndu. Pacers héldu að þeir hefðu tryggt sér sigurinn þegar TJ Ford kom þeim tveimur stigum yfir með stökkskoti þegar 0.8 sek lifðu af leiknum, en James hafði aðrar hugmyndir. Hann fékk háa sendingu inn í teg sem hann ætlaði að taka viðstöðulaust, en dómarinn taldi að Danny Granger hefði brotið á honum og sendi hann því á línuna. James, sem hafði nær einn síns liðs, dregið Cavs aftur inn í leikinn jafnaði leikinn með vítunum, en gaf Pacers góða hugmynd að næsta kerfi.
Þeir sendu boltann inn á Granger sem fékk villu á James og fór á línuna þegar 0.2 sek voru eftir. Granger hitti úr fyrra og klikkaði viljandi úr því síðara og þar með leið tíminn og erfiði LeBron James var fyrir lítið.
Mike Brown, hinn vanalega dagfarsprúði maður, froðufelldi næstum af bræði þar sem honum þótti ákvörðun dómaranna undir lokin hafa eyðilagt leikinn og gæti hann átt yfir höfði sér sekt fyrir ummælin. „Mér er sama þó ég verði sektaður. Þannig er þetta bara. Ég sá bæði atvikin vel og slæmákvörðun dómara réði úrslitum í þessum leik. Ef þeir ætla að sekta mig fyrir að segja sannleikann mega þeir sekta mig. Þetta er ekki eitthvað sem ég geri venjulega.“ Á meðan þessu gekk á á Austurströndinni gekk LA Lakers allt í haginn á heimavelli þar sem þeir hristu af sér lið Oklahoma Thunder, 105-98. Miðað við stöðu liðanna voru leikmenn Thunder nokkuð seigir og héngu inni í leiknum allt til enda og voru fimm stigum undir þegar Lakers kláruðu leikinn loks.
Kobe Bryant var búinn að ná sér af veikindunum sem hrjáðu hann í síðasta leik og skoraði 34 stig. Hann komst þannig upp fyrir 23.000 stig á ferlinum og er yngsti leikmaður í sögu NBA til að ná því takmarki.
Þetta var sjöundi sigur Lakers í röð, en þeir unnu alla sex leikina í keppnisferð um Austurdeildina. Thunder hafa rétt allverulega úr kútnum en þeir hafa nú unnið 10 af síðstu 20 leikjum sínum.
Meðal annarra úrslita í nótt má geta þess að NY Knicks töpuðu enn einum leiknum þar sem þeir lágu fyrir Golden State Warriors í miklum stigaleik, 144-127, þar sem lítið var um varnarleik, enda Don Nelson og Mike D‘Antoni við stjórnvölinn hjá liðunum.
Önnur lið úr efri hluta Vesturdeildarinnar unnu einnig leiki sína. San Antonio vann New Jersey, Dallas vann Sacramento og Denver vann Miami.
Hér eru úrslit næturinnar:
Washington 90
Atlanta 111
Cleveland 95
Indiana 96
Denver 99
Miami 82
San Antonio 108
New Jersey 93
Toronto 110
Minnesota 102
Sacramento 100
Dallas 118
Detroit 102
Chicago 107
Oklahoma City 98
LA Lakers 105
New York 127
Golden State 144
ÞJ



