spot_img
HomeFréttirStórleikur í Ljónagryfjunni

Stórleikur í Ljónagryfjunni

13:08

{mosimage}

 

(Magnús Gunnarsson í deildarleik Njarðvíkur og Keflavíkur í Ljónagryfjunni á síðustu leiktíð) 

 

Sannkölluð risarimma verður í Iceland Express deild karla í körfuknattleik í kvöld þegar Njarðvíkingar taka á móti grönnum sínum frá Keflavík í Ljónagryfjunni. Fjórir leikir eru á dagskrá í deildarkeppninni í dag en leikur Njarðvíkur og Keflavíkur ber þar hæst. Allir leikir kvöldsins hefjast kl. 19:15.

 

Suðurnesjaliðin eru jöfn og efst á toppi deildarinnar eftir þrjá sigra í röð og í kvöld verður skorið úr um hvaða lið mun sitja eitt á toppi deildarinnar að fjórum umferðum loknum. Viðureignir Njarðvíkur og Keflavíkur eru jafnan einhver besta auglýsing sem hægt er að fá fyrir íslenskan körfuknattleik enda ávallt miklir baráttuleikir.

 

Liðin mættust tvívegis í deildinni á síðustu leiktíð þar sem Njarðvíkingar höfðu 86-72 sigur í fyrri leiknum. Njarðvík hafði svo aftur sigur í síðari viðureign liðanna 70-83 í Sláturhúsinu.

 

{mosimage}

(Brenton hefur jafnan farið mikinn í nágrannarimmunum)

 

Bæði lið hafa tekið töluverðum breytingum frá síðustu leiktíð og er sem dæmi allt annað að sjá til Keflavíkur þessa stundina en á síðustu leiktíð. Erlendu leikmennirnir virðast vera að falla vel að hópnum en Sigurður Ingimundarson hefur gefið það út að enn vanti stöðugleika í leik liðsins.

 

Hjá Njarðvík varð mikill hvalreki á undirbúningstímabilinu þegar Hörður Axel Vilhjálmsson gekk til liðs við græna. Hann hefur þegar látið vel að sér kveða en Bandaríkjamaðurinn Charleston Long hefur haft fremur hægt um sig og spurning hvort Teitur Örlygsson hafi þolinmæði fyrir fleiri fjögurra stiga frammistöður.

 

Sem sagt, stórleikur í Ljónagryfjunni í kvöld þar sem enginn ætti að láta sig vanta. Það sem gerir þennan leik UMFN og Keflavíkur stærri en venjulega er sú staðreynd að dregið verður í NBA leik yngri iðkenda KKD UMFN. Allir iðkendur Körfuknattleiksdeildarinnar sem hafa gengið frá æfingagjöldum fara í pott og dregið verður um glæsileg verðlaun. Aðalverðlaunin eru ferð fyrir tvo til Bandaríkjanna á NBA leik. Svo verður dregið um nokkra smærri vinninga. Dregið verður um ferðina í lok 3.leikhluta og mun Friðrik Ingi Rúnarsson framkvæmdastjóri KKÍ sjá um dráttinn.

 

{mosimage}

(Ísak Einarsson/ Mynd: Snorri Örn Arnaldsson)

 

Í Grafarvogi mætast svo Fjölnir og Tindastóll en Stólarnir leika líklegast án Svavars Birgissonar sem snéri sig á ökkla gegn Skallagrím á föstudag. Tindastóll hefur unnið tvo leiki til þessa og tapað einum en Fjölnismenn hafa unnið einn leik og tapað tveimur. Stólarnir eru ekki með breiðan hóp og spurning hvort það reynist þeim um of að leika án Svavars.

 

Snæfellingar fá nýliða Stjörnunnar í heimsókn en Snæfell hefur ekki byrjað verr í úrvalsdeild í 9 ár.

 

(Innskot frá www.visir.is )

Snæfell er eina liðið í Iceland Express deild karla sem hefur ekki náð að vinna leik í fyrstu þremur umferðum tímabilsins en liðið tók fyrsta titil tímabilsins þegar liðið varð Powerade-meistari fyrir mót.  

Snæfell hefur tapað fyrir Njarðvík og KR á útivelli og svo í framlengingu gegn Keflavík á heimavelli. Snæfellsliðið hefur ekki byrjað verr í níu ár, eða síðan liðið tapaði þremur fyrstu leikjum sínum þegar það var nýliði í deildinni tímabilið 1998-99. Snæfell vann þá Njarðvík á heimavelli í fjórða leiknum og síðan næstu fjóra leiki á eftir.

 

Stjörnumenn veittu Grindvíkingum verðuga mótspyrnu í síðasta leik en máttu sætta sig við ósigur en ljóst er að Stjarnan verður ekkert lamb að leika sér við í vetur og miðað við frammistöðu Hólmara að undanförun má segja að þó þeir séu á heimavelli komi þeir sem ,,Underdog” í leikinn í kvöld.

 

{mosimage}

(Dimitar sallaði niður 6 þristum í síðasta leik)

 

Á Akureyri er um skyldusigur Íslandsmeistaranna að ræða. Flestir myndu eflaust sjá leik Þórs og KR í kvöld sem skyldusigur fyrir KR. Íslandsmeistararnir gegn nýliðunum. Jafnan hafa þetta verið ójafnir leikir í gegnum tíðina sama um hvaða lið ræðir en Þórsarar hafa sýnt og sannað hvað í sér býr og verða erfiðir heim að sækja í vetur. Erfið byrjun hjá nýliðunum, höfðu reyndar sigur á ÍR í fyrsta leik en töpuðu svo stórt gegn Keflavík og Njarðvík og mæta svo KR í kvöld.

 

{mosimage}

(Helgi setti 15 stig fyrir KR í síðasta leik)

 

Þá verður einn leikur í 1. deild karla í dag þegar Reynir Sandgerði tekur á móti Þrótti Vogum en þessi Suðurnesjalið sitja á botni 1. deildar karla án stiga. Það lið sem hefur sigur í dag á kost á því að hífa sig lítið eitt upp af botninum. Leikurinn hefst kl. 17:00.

 

Þá verða þrír leikir í 1. deild kvenna. Tveir hefjast kl. 14:00 og einn kl. 16:00. Tindastóll og Skallagrímur mætast á Sauðárkróki kl. 14:00 og Haukar B fá Þór Akureyri í heimsókn að Ásvöllum kl. 14:00. Klukkan 16:00 mætast svo KR B og Ármann/Þróttur í DHL-Höllinni.

 

Fjölmennum á vellina!

 

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -