spot_img
HomeFréttirStórleikur í Grindavík í kvöld

Stórleikur í Grindavík í kvöld

08:15
{mosimage}

 

(Friðrik Ragnarsson og Teitur Örlygsson mætast í kvöld í fyrsta sinn sem þjálfarar úrvalsdeildarliða á Íslandsmótinu) 

 

Ellefta umferð Iceland Express deildar karla hefst í kvöld með þremur leikjum sem allir hefjast kl. 19:15. Í Grindavík mætast gulir og Njarðvík, Tindastóll tekur á móti nýliðum Stjörnunnar og bikarliðin Hamar og ÍR mætast í Hveragerði.

 

Grindavík er í þriðja sæti deildarinnar með 14 stig og Njarðvík hefur 12 stig í 4. sæti deildarinnar og geta því jafnað Grindavík að stigum með sigri. Grindavík á hins vegar leik til góða gegn Njarðvík þar sem viðureign Grindavíkur og Þórs Akureyri var frestað fyrir jól sökum óveðurs.

 

Þá er leikur Grindavíkur og Njarðvíkur athyglisverður fyrir margra hluta sakir þar sem Igor Beljanski lék með Njarðvík á síðustu leiktíð en er nú í röðum Grindavík og Páll Kristinsson sem lék stærstan hluta ferils síns með Njarðvík mætir sínu gamla liði. Þá lék Damon Bailey um hríð með Grindavík en er nú í herbúðum Njarðvíkur.

 

Báðir þjálfarar liðanna, þeir Teitur Örlygsson og Friðrik Ragnarsson eiga það sammerkt að hafa orðið Íslandsmeistarar með Njarðvík. Friðrik lék allan sinn feril með Njarðvík ef frá er talið eitt tímabil hjá KR en kollegi hans Teitur lék allan sinn feril með Njarðvík en varði einu ári erlendis sem atvinnumaður.

 

Það er því von á hörkuleik í Grindavík í kvöld þar sem allt verður lagt í sölurnar enda hafa síðustu leikir þessara liða verið stórbrotin skemmtun og oftar en ekki hefur þurft að framlengja þessar rimmur.

 

Ágúst Björgvinsson og lærisveinar hans í Hamri taka á móti heitum ÍR-ingum en Hamar þarf bráðnauðsynlega á sigri að halda í kvöld enda verma þeir botnsæti deildarinnar með aðeins tvö stig sem komu eftir heimasigur gegn Fjölni síðasta október. ÍR er í 7. sæti deildarinnar með 8 stig og höfðu nokkuð óvæntan stórsigur gegn Snæfell í síðustu umferð 102-77.

 

Þá mætast liðin í neðri hlutanum, Tindastóll og Stjarnan en Stjörnumenn bættu nýverið við sig leikmanni sem líkast til verður ekki kominn með leikheimild í kvöld. Stólarnir töpuðu naumlega gegn Íslandsmeisturum KR í síðustu umferð en Stjarnan burstaði Hamar svo von er á nokkuð spennandi leik fyrir Norðan í kvöld.

 

Staðan í deildinni

Fréttir
- Auglýsing -