spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaStórkostleg frammistaða Dagnýjar Lísu dugði ekki til - Ármann tók forystu í...

Stórkostleg frammistaða Dagnýjar Lísu dugði ekki til – Ármann tók forystu í einvíginu

Úrslitakeppni 1. deildar kvenna hófst í dag með fjórum leikjum. Í Kennó lék Ármann sinn fyrsta úrslitakeppnisleik í mörg ár þegar ungt og efnilegt lið Hamars/Þórs mætti í heimsókn. Liðin enduðu í 5. og 6. sæti deildarinnar með jafn mörg stig. Óhætt er að segja að leikurinn hafi staðið undir væntingum og var spennan í algleymi.

Gangur leiksins:

Ármenningar voru mun öflugri í upphafi leiks og náðu strax góðri forystu. Staðan var með 26-9 fyrir Ármann en varnarleikur liðsins var frábær í upphafi. Hamar gáfust þó aldrei upp og héldu Ármanni í hæfilegri fjarlægð út fyrri hálfleikinn. Staðan í hálfleik var 37-26 fyrir Ármanni.

Segja má að Hamar hafi hægt og rólega komið sér inní leikinn á ný í seinni hálfleik, liðið lék betri varnarleik, svæðisvörn þeirra kom Ármanni ítrekað í vandræði á sama tíma og Dagný Lísa Davíðsdóttir datt rækilega í gírinn. Í fjórða leikhluta náði Hamar mest að minnka muninn í tvö stig og upphófst æsispennandi lokamínútur. Svellkaldir Ármenningar kláruðu svo leikinn á vítalínunni þar sem liðið setti sex víti í röð þegar mest á reyndi. Lokastaðan 78-70 fyrir Ármanni sem er komið í 1-0 forystu í einvíginu.

Atkvæðamestar

Í liði Hamars átti Dagný Lísa Davíðsdóttir hreint magnaðan leik, hún endaði með 47 stig, 19 fráköst og hitti 64% úr 33 skotum. Algjörlega frábær frammistaða hjá leikmanninum. Hrafnhildur Magnúsdóttir átti einnig fínan leik með 8 stig, 7 fráköst og 8 stoðsendingar.

Ármenningar dreifðu stigunum á milli sín en hin 16 ára Auður Hreinsdóttir átti frábæran leik fyrir heimakonur, hún endaði með 21 stig, 10 fráköst og 5 stolna bolta. Jónína Þórdís var að vanda öflug með 16 stig, 7 fráköst og 4 stoðsendingar.

Hvað næst?

Ármann er nú með annan fótinn í undanúrslitunum en hlutirnir geta breyst hratt. Staðan í einvíginu er 1-0 fyrir Ármanni en sigra þarf tvo leiki til að komast í undanúrslit. Næsti leikur fer fram á sunnudag kl 16:00 í Frystikistunni á Hveragerði. Miðað við leik kvöldsins má búast við frábærum leik á sunnudag þar sem allt verður undir.

Tölfræði leiksins

Viðtal eftir leik:

Fréttir
- Auglýsing -