spot_img
HomeFréttirStóra stundin runnin upp

Stóra stundin runnin upp

 
Oddaleikur KR og Hamars um Íslandsmeistaratitilinn í kvennaflokki fer fram í DHL-Höllinni í kvöld. Leikurinn hefst stundvíslega kl. 19:15. Það lið sem vinnur leik kvöldsins verður Íslandsmeistari en þetta er annað árið í röð sem blása þarf til oddaleiks í Iceland Express deild kvenna. Leikurinn verður í beinni útsendingu hjá Sport TV.
Staðan í einvíginu er jöfn 2-2. Hamar vann fyrsta leikinn, KR tók næstu tvo og Hamar jafnaði svo einvígið í síðasta leik með 81-75 sigri í Hveragerði þar sem fjölmennt var á pöllunum. Það er því um að gera að mæta tímanlega í Vesturbæinn til að tryggja sér gott sæti í stúkunni.
 
Úrslit í fyrstu fjórum leikjum liðanna:
 
KR 79-92 Hamar
Hamar 69-81 KR
KR 83-61 Hamar
Hamar 81-75 KR
 
Hamar hefur aldrei orðið Íslandsmeistari áður, hvorki í karla- né kvennaflokki en að sama skapi er kvennalið KR það lið sem unnið hefur flesta Íslandsmeistaratitla eða 13 talsins og 10 bikarmeistaratitla. Staðan er nokkuð athyglisverð, þetta er þriðja árið í röð sem KR leikur til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn og fyrir liggja tvö silfur frá síðustu tveimur leiktíðum. Fá Vesturbæingar þriðja silfrið í röð í kvöld eða landa þær sínum fjórtánda titli? Hamar hefur yfirstigið hverja hindrunina á fætur annarri þetta tímabilið, urðu fyrstar til að vinna KR, unnu sinn fyrsta sigur gegn Keflavík í Toyota-höllinni, komust í fyrsta sinn í úrslit og verður þetta í fyrsta sinn sem þær verða Íslandsmeistarar?
 
Fjölmennum á völlinn!
 
Fréttir
- Auglýsing -