spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaStólastúlkur með sterkarn útisigur í Njarðvík

Stólastúlkur með sterkarn útisigur í Njarðvík

Njarðvík tók á móti Tindastól í 1. deild kvenna í kvöld. Njarðvíkingar spiluðu án hinar geysi sterku Vilborgar Jónsdóttir sem hefur stýrt leik liðsins í vetur, en hún er að ná sér eftir veikindi. Njarðvík var fyrir leikinn með 16 stig, þrem sigrum á undan Tindastól. Liðin hafa mæst tvisvar í vetur og unnið heimaleiki sína.

Njarðvíkurstúlkur byrjuðu betur en Stólastúlkur voru fljótar að ná þeim og tóku fram úr þeim þegar líða fór á leikhlutann. Þær héldu svo tveggja körfu forystu út leikhlutann. Staðan eftir fyrsta leikhluta 15 – 20.

Gestirnir byrjuðu annan leikhluta miklu betur og þegar leikhlutinn var hálfnaður voru þær búnar að setja 7 stig gegn 0 stigum Njarðvíkurstúlkna. Stólastúlkur voru að spila þétta svæðisvörn sem Njarðvíkurstúlkur áttu mjög erfitt með að brjóta upp framan af leikhlutanum. Heimastúlkur fóru loksins að setja skot en Tindastólsstúlkur héldu þeim vel frá sér en svo sóttu heimastúlkur í sig veðrið og náðu að minnka niður forystu gestanna í 2 stig. Staðan í hálfleik 33 – 35.

Stólastúlkur byrjuðu þriðja leikhluta betur og fóru að byggja upp góða forystu hægt og rólega. Njarðvíkurstúlkur áttu fá svör við leik gestanna. Staðan fyrir fjórða og síðasta leikhlutann 41 – 53.

Njarðvíkurstúlkur komu grimmar inn í fjórða leikhluta og minnkuðu muninn niður í 6 stig. Mikil barátta var milli liðanna og Njarðvík komst mest 3 stigum frá Tindastól. Síðustu mínúturnar voru æsispennandi en það voru að lokum Tindastólsstúlkur sem stóðu uppi sem sigurvegarar. Lokatölur 63 – 69.

Byrjunarlið:

Njarðvík: Erna Freydís Traustadóttir, Kamilla Sól Viktorsdóttir, Júlía Scheving Steindórsdóttir, Jóhanna Lilja Pálsdóttir og Eva María Lúðvíksdóttir.

Tindastóll: Tessondra Williams, Marín Lind Ágústsdóttir, Eva Rún Dagsdóttir, Rakel Rós Ágústsdóttir og Kristín Halla Eiríksdóttir.

Þáttaskil:

Svæðisvörn Tindastóls gerði gæfumuninn í þessum leik.

Tölfræðin lýgur ekki:

Jafnvel þó að Njarðvíkurstúlkur hafi tekið miklu fleiri fráköst, þá dugði það ekki til, því Stólastúlkur hittu miklu betur en heimastúlkur.

Hetjan:

Júlía Scheving Steindórsdóttir, Jóhanna Lilja Pálsdóttir og Erna Freydís Traustadóttir áttu allar fínan leik fyrir heimastúlkur. Hjá Tindastól áttu þær Marín Lind Ágústsdóttir, Eva Rún Dagsdóttir og Kristín Halla Eiríksdóttir allar mjög fínan leik. Tessondra Williams var hins vegar best á vellinum, setti 21 stig, tók 12 fráköst, 6 stoðsendingar og stal boltanum 7 sinnum.

Kjarninn:

Tindastólsstúlkur áttu alveg prýðilegan leik. Svæðisvörnin hjá þeim var að gera Njarðvíkurstúlkum mjög erfitt fyrir og þær áttu sigurinn svo sannarlega skilið. Að sama skapi eiga Njarðvíkurstúlkur hrós skilið fyrir að halda alltaf áfram og berjast fram í síðustu mínútu.

Tölfræði

Viðtöl:

Fréttir
- Auglýsing -