spot_img
HomeFréttirStólasigur gegn Fjölni (Umfjöllun)

Stólasigur gegn Fjölni (Umfjöllun)

00:43
{mosimage}

(Kristinn Friðriksson stýrði sínum mönnum í Tindastól til sigurs í kvöld) 

Tindastóll og Fjölnir mættust á Króknum í kvöld og tóku heimamenn tvö dýrmæt stig í leik liðanna. Tilþrifslega fer leikurinn ekki í sögubækurnar, en baráttan var fyrir hendi mestan part leiksins og menn vildu selja sig dýrt. Byrjunarlið Tindastóls var Samir, Philip, Svavar, Ísak og Joshua Buettner. Hjá Fjölni, sem skipti út tveimur erlendum leikmönnum fyrir einn um helgina, byrjuðu Anthony Drejaj, Kristinn J, Tryggvi P, Helgi Þ og nýi leikmaðurinn Sean Knitter. 

Fjölnir byrjaði betur og komst í 5-8 í byrjun leiks. Síðan tóku heimamenn við sér, settu niður tvo þrista og náðu sæmilegu forskoti, en þriggja stiga karfa frá Anthony Drejaj í síðustu sókn fyrsta leikhluta kom muninum niður í 6 stig og staðan 29-23. Eftir 1. leikhluta voru komnir 4 þristar frá heimamönnum sem voru að hitta ágætlega. 

Halldór Halldórsson kom inn í byrjun 2. leikhluta hjá heimamönnum og byrjaði af krafti, setti strax niður 5 stig úr tveimur skotum. Stólarnir bættu aðeins við muninn þegar líða tók á leikhlutann og náðu mest 13 stiga forskoti í stöðunni 51-38. Annar fjórðungur endaði svo í 11 stiga mun 56-45. Eins og sést á tölunum voru bæði lið nokkuð spræk í sókninni í hálfleiknum, en minna fór fyrir varnarleik. Anthony fór mikinn fyrir Fjölni og var kominn með 16 stig í fyrri hálfleik, en hjá Stólunum skiptist stigaskorið jafnar og voru Samir og Philip hvor með 11 stig og Svavar með 10. Kristinn Jónasson fékk þrjár villur í 1. leikhlutanum og hafði það áhrif á leik Fjölnis þar sem hann þurfti að sitja mikið á bekknum eftir það.  

Fjölnir byrjaði síðari hálfleik með tveimur þristum og komu muninum í 9 stig. Sá munur helst svipaður út allan leikhlutann og staðan að þriðja leikhluta loknum 74-64. Buettner vaknaði til lífsins hjá Stólunum og skoraði 10 stig af 18 stigum Tindastóls í leikhlutanum. Samir skoraði þrjú fyrstu stig síðasta leikhluta og munurinn jókst aftur fram í miðjan leikhlutann. Þegar fjórar mínútur voru búnar tók Bárður leikhlé í stöðunni 86-70. Fjölnir komu sterkir inn úr leikhléinu og skoruðu 7 stig í röð á næstu tveimur mínútum og Kiddi sá það ráð vænst að taka leikhlé til að stoppa áhlaupið. Það tókst og Tindastóll svaraði með næstu sjö stigum og Philip negldi svo síðasta naglann í kistu Fjölnis með þristi þegar rúm mínúta var eftir. Staðan orðin 96-77 og fengu nýliðarnir Hreinn Sigurðsson og Sigurður Gunnarsson að koma inn fyrir heimamenn.

Anthony Drejaj besti maður Fjölnis í kvöld lagaði aðeins stöðuna í lokin fyrir sína menn með tveggja stiga körfu og víti sem fylgdi. Lokastaðan 96-80 og tvö mikilvæg stig í hús fyrir Tindastól, en að sama skapi dýrt fyrir Fjölni. Tindastóll er því með betri innbyrðist viðureignir á bæði Hamar og Fjölni og verða því liðin að ná í fleiri stig en Stólarnir til að forðast fall. Tindastóll er komin með 12 stig, en Fjölnir enn með 8 og Hamar með 6 eftir tap gegn Grindavík í kvöld. 

Lið Tindastóls var nokkuð jafnt í kvöld, bestur var Philip, en Svavar og Samir komu honum næstir. Halldór og Helgi komu virkilega vel inn í leikinn í kvöld, Halli með 7 stig og Helgi með 6 og 6 fráköst. Ísak og Joshua stóðu fyrir sínu, en Serge náði sér ekki á strik og virðist vera í smá lægð þessa dagana. 

Bestur Fjölnismanna var Anthony Drejaj eins og áður segir með 28 stig. Nýi maður Sean Knitter átti þokkalegan fyrsta leik, með 17 stig og 9 fráköst. Sóknarleikur Fjölnis var nokkuð stirður á köflum og greinilegt að leikmannaskiptin um helgina háðu þeim. 

Stigaskor Tindastóls:

Philip 22, Svavar 19, Samir 17, Joshua 14, Ísak 9, Halli 7, Helgi Rafn 6 og Serge 2. 

Stigin skiptust þannig hjá Fjölni:

Anthony 28, Sean 17, Kristinn 11, Níels 9, Tryggvi 6, Helgi og Hjalti 3 hvor, Valur 2 og Árni 1.  

Tölur úr leiknum:
5-8, 15-11, 23-16, 29-23, – 36-29, 43-36, 52-40, 56-45, – 62-51, 68-57, 70-61, 74-64, – 79-67, 86-70, 90-77, 96-80.
 

Tölfræði leiksins

Texti: Jóhann Sigmarsson 

Engar myndir eru fáanlegar úr leiknum að þessu sinni. 

www.tindastoll.is

Fréttir
- Auglýsing -