spot_img
HomeFréttirStólarnir tóku fyrsta leik í Keflavík

Stólarnir tóku fyrsta leik í Keflavík

Keflavík tók á móti Tindastól í fyrsta leik liðanna í fyrsta leik liðanna í úrslitakeppni karla. Flott stemmning í húsinu og greinilegt að tilhlökkunin og spennan vegna úrslitakeppninnar leyndi sér ekki. Gestirnir innbyrtu sigurinn eftir framlengdan leik, 107-114, í frábærum leik.

Keflvíkingar voru mun ákveðnari í aðgerðum sínum í fyrsta leikhluta. Gott flæði og stemmning hjá liðinu og greinilegt að það var vel gírað í byrjun leiks. Stólarnir voru langt frá sínu besta í 1. leikhluta; staðir og fyrirsjáanlegir í sókninni. Þeir hresstust þó aðeins er tók að nálgast lok leikhlutans, þá var staðan 22-17. 

Stólarnir mættu mun ákveðnari til leiks í öðrum leikhluta; girtu sig í úrslitakeppnisbrókina og fóru að spila almennilegan körfubolta. Keflavík gaf svo sem lítið eftir, og hélt litlu forskoti allt þangað til 3 mínútur voru eftir af leikhlutanum; þá komust Stólarnir yfir í fyrsta sinn, 39-41, tóku frumkvæðið þótt heimamenn væru skammt undan; staðan í leikhléi var 44-50, gestunum í vil.

Í þriðja leikhlutanum snerist dæmið nokkuð; Stólarnir fóru að spila hörkuvörn og trufluðu sóknarleik Keflvíkinga mikið; þeir beittu pressu og náðu algerum tökum á leiknum. Ef ekki hefði komið til stórleikur hjá Halldóri Garðari Hermannssyni þá hefðu Stólarnir verið meira en tíu stigum yfir er leikhlutinn endaði, 67-77 var staðan þá.

Í fjórða leikhluta héldu gestirnir áfram og voru mun sterkari framan af leikhlutanum; Keflavík hékk inni í leiknum og neitaði hreinlega að gefast upp þótt staðan virtist vonlítil er lítið var eftir. Þeir náðu góðri rispu undir lok venjulegs leiktíma og náðu að setja leikinn í framlengingu, lokatölur í venjulegum leiktíma voru 97-97. Klaufalagt hjá Stólunum, voru með unninn leik í höndunum.

Gestirnir voru síðan talsvert sterkari í framlengingunni þótt Keflvíkingum tækist að hanga í þeim framan af framlengingunni. Stólarnir voru bara of sterkir.fyrir Keflavíknga þá – staðan því 1-0 fyrir Tindastól í rimmunni, lokatölur urðu 107-114 í virkilega flottum leik sem lofar góðu um framhaldið.

Hjá Tindastól var Adomas Drungilas alveg frábær – bæði innan teigs og utan – skaut vel og reif niður fráköst á fullu og veitti liði sínu mikinn andlegan og líkamlegan styrk. Sigtryggur Arnar Björnsson var geysisterkur og Pétur Rúnar Birgisson stjórnaði leik liðsins af miklu öryggi. Liðið lék vel heild yfir og virðist algjörlega tilbúið fyrir úrslitakeppnina.

Hjá heimamönnum var Halldór Garðar Hermannsson yfirburðarmaður; lék eins og þetta væri síðasti dagur lífs hans – barátta hans og stemmning smitaði frá sér og tendraði neistann fyrir Keflavík. Án stórleiks Halldórs Garðars hefðu Stólarnir mjög líklega innbyrt frekar öruggan sigur – en þessi strákur er með stórt hjarta og mikið skap. Dominykas Milka lék af krafti og skilaði sínu og vel það. Keflvíkingar eiga hrós skilið fyrir að gefast ekki upp þrátt fyrir að staðan væri erfið.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -