23:15
{mosimage}
Tindastólsmenn gerðu góða ferð á Suðurlandið í kvöld þegar þeirhöfðu 76-81 sigur á Hamri í Hveragerði. Stigahæstur í liði gestanna var Donald Brown með 20 stig, 9 fráköst og 4 stolna bolta. Hjá heimamönnum var Marvin Valdimarsson með 18 stig.
Leikurinn fór ágætlega af stað og heimamenn komust í 14-7. Tindastólsmenn tóku svo góða spretti og leiddu að loknum fyrsta leikhluta 20-25. Annar leikhlutinn var býsna jafn en Stólarnir voru með smá forskot en Friðrik Hreinsson hélt heimamönnum við efnið og skoraði 8 stig af 16 og komust Hamarsmenn í 33-31 þegar 3 mínútur voru til leikhlés. Tindastóll gerði svo síðustu fimm stigin í fyrri hálfleik og leiddu 36-38 í hálfleik.
Sauðkrækingar gerðu 11 stig gegn 4 frá Hamri í upphafi síðari hálfleiks en heimamenn gyrtu í brók og náðu að minnka muninn í 52-54 en þá tóku Stólarnir að nýju rispu og breyttu stöðunni í 53-58 fyrir fjórða og síðasta leikhlutann.
Í upphafi fjórða leikhluta var það nánast einn maður sem hélt Hamri algjörlega á floti en það gerði Marvin með því að skora 12 fyrstu stig Hamars í fjórðungnum á móti 12 stigum Browns og Svavars hjá Tindastól. Eftir það var skipst á að skora og náði Hamar aldrei í skottið á Stólunum og var munurinn minnst 3 stig í tvígang á lokamínútunni en gestirnir skiluðu vítunum sínum ágætlega niður og lönduðu sigri í Hveragerði.
Marvin var stigahæstur hjá Hamri með 18 stig og Bojan kom næstur með 13 stig. Raed skoraði 12 stig en Lárus 11 stig og gaf 4 stoðsendingar. Byrd skoraði 8 stig, tók 14 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Friðrik skorað 8 stig og Viðar 6.
Brown var bestur í liði gestanna með 20 stig, 9 fráköst og 4 stolna bolta en Svavar Birgis skoraði 19 stig. Konatzewski skoraði 12 stig og Shaptahovic skoraði 11 stig. Serge skoraði 8 stig, Ísak 7 stig og Helgi 4.
Unnið upp úr frétt af www.hamarsport.is
Mynd: www.hamarsport.is – Heimamenn ganga niðurlútir af velli í leikslok



