spot_img
HomeBikarkeppniStólarnir ógnarsterkir á lokasprettinum gegn Álftanesi

Stólarnir ógnarsterkir á lokasprettinum gegn Álftanesi

Tindastóll lagði Álftanes í kvöld í undanúrslitum VÍS bikarkeppni karla, 72-90. Stólarnir eru því komnir í úrslitaleikinn sem fram fer á laugardag, á meðan að Álftnesingar eru úr leik.

Fyrir leik

Gengi liðanna í deildinni í vetur ekki verið svo ólíkt, þó vissulega hafi neikvæð umfjöllun verið heldur meiri Tindastóls megin. Eðlilega kannski, í ljósi þess að þeir eru ríkjandi Íslandsmeistarar. Staðan þó sú að þeir eru í 7. sæti Subway deildarinnar með 20 stig á meðan að Álftanes eru sæti ofar með 22 stig.

Gangur leiks

Stólarnir byrjuðu leikinn af miklum krafti og eru snöggir að byggja sér upp smá forystu, en staðan fyrir annan leikhluta var 17-23. Augljóst var á báðum liðum að um undanúrslitaleik í bikar var að ræða og var hver einasti leikmaður sem steig á gólfið tilbúinn að selja sig dýrt. Undir lok fyrri hálfleiksins láta Stólarnir svo kné fylgja kviði, eru mest 15 stigum yfir í öðrum, en leiða með 12 þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 39-51.

Stigahæstir fyrir Tindastól í fyrri hálfleiknum voru Arnar Björnsson og Þórir Guðmundur Þorbjarnarson með 9 stig hvor á meðan að Norbertas Giga var kominn með 15 stig fyrir Álftanes.

Álftnesingar hefja seinni hálfleikinn á sterki 11-4 áhlaupi og er munrinn því kominn niður í 5 stig þegar sá þriðji er hálfnaður, 50-55. Stólarnir ná aðeins aðeins að spyrna við í framhaldinu, en fyrir lokaleikhlutann leiða þeir með 2 stigum, 63-65. Nokkuð áhyggjuefni fyrir Stólana á leið inn í þann fjórða að þeirra stigahæsti leikmaður Arnar Björnsson var kominn með 4 villur.

Stólarnir mæta svo tvíelfdir til leiks inn í fjórða leikhlutann. Snemma kemur Arnar aftur inn á þrátt fyrir villuvandræðin og þeir ná aftur að skapa sér þægilegt bil, 13 stiga munur með 7 mínútur til leiksloka, 63-76. Undir lokin ná Stólarnir svo að sigla nokkuð lygnan sjó og sigra að lokum gífurlega örugglega, 72-90.

Atkvæðamestir

Atkvæðamestur fyrir Tindastól í leiknum var Arnar Björnsson með 22 stig og 4 fráköst. Þá skilaði Þórir Guðmundur Þorbjarnarson laglegri tvennu, 18 stigum, 12 fráköstum og 6 stoðsendingum.

Hvað svo?

Álftnesingar eru úr leik í bikarnum þetta árið á meðan að Tindastóll fer í úrslitaleikinn komandi laugardag 23. mars, þar sem mótherjinn verður sigurvegari viðureignar Stjörnunnar og Keflavík sem fram fer nú seinna í kvöld.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Fréttir
- Auglýsing -