spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaStólarnir númeri of stórir fyrir Grindavík í Síkinu

Stólarnir númeri of stórir fyrir Grindavík í Síkinu

Tindastóll tók á móti Grindavík í Subway deild karla í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld.

Stólar unnu frestaðan leik gegn Hetti síðasta mánudag en Grindavík laut í lægra haldi gegn Njarðvík á heimavelli.

Heimamenn í Tindastól hófu leikinn af krafti og augljóst að þeir ætluðu sér að taka vel á gestunum. Arnar Björnsson byrjaði eins og hann endaði síðasta leik, með hörku varnarleik og góðum skotum, var búinn að setja 3 þrista eftir rúmar 4 mínútur. Stólar náðu 21-13 forystu en enduðu leikhlutann 23-17 og Síkið var á eldi. Ragnar Ágústsson var enn meiddur og Orri Svavarsson kom fyrr inn í róteringuna en vant var og lék sínar mínútur vel. Annar fjórðungur þróaðist á svipaðan hátt með hörkuvörn heimamanna sem náðu fljótlega 11 stiga forystu 32-21. Grindvíkingar gefast aldrei upp en það var augljóst að þeir áttu erfitt með ákafa vörn heimamanna og þá ekki síst Arnars sem fór oft illa með Pitts þegar hann var að taka boltann upp völlinn. Mestur var munurinn 16 stig en Grindvíkingar áttu síðustu 5 stig hálfleiksins og staðan 43-32 í hálfleik.

Barningurinn hélt áfram í seinni hálfleik en Grindvíkingar sýndu tennurnar og byrjuðu að éta muninn niður hægt og hægt. Þeir náðu tvisvar að koma muninum niður í 3 stig en Stólar enduðu leikhlutann með 4 stigum af vítalínunni og staðan 66-59 fyrir lokaátökin. Jafnt hélst í byrjun fjórða leikhluta en eftir rúmar 3 mínútur komust Stólar í 10 stiga mun með troðslu frá Badmus og eftir fylgdu þristar frá Geks og Pétri Rúnari og Stólar litu ekki til baka eftir það. Lokatölur 95-82 og mikilvæg stig í pokann.

Hjá Stólum var Arnar Björns með flottan leik, skilaði 12 stigum, 4 stoðsendingum og 5 stolnum boltum, var að spila frábæra vörn. Byrjunarlið Stóla fór allt í tveggja stafa tölur í stigaskorun og Keyshawn og Pétur Rúnar voru framlagshæstir með 23 punkta. Hjá Grindavík var það Pitts sem dró vagninn og setti 22 stig þrátt fyrir 7 tapaða bolta. Munurinn á liðunum kom einna helst fram í þeirri tölfræði þar sem Grindavík tapaði 18 boltum gegn 8 hjá Stólum. Óli Óla virkaði þreyttur og setti aðeins 5 stig á töfluna.

Mynd: Pétur Rúnar átti flottan leik

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun, myndir / Hjalti Árna

Fréttir
- Auglýsing -