Tindastóll náði í fyrsta heimasigur tímabilsins í Dominos deild karla í körfubolta þegar Stjarnan mætti í Síkið á Sauðárkróki í kvöld.
Gestirnir byrjuðu betur í Síkinu í kvöld og komust í 6-11 þegar tæpar 5 mínútur voru liðnar. Axel Kára lagaði stöðuna með þristi og leikurinn jafnaðist og Gerel Simmons og Hannes Ingi færðu heimamönnum 6 stiga forystu eftir fyrsta leikhluta með 2 þristum, staðan 26-20. Í öðrum leikhluta tók Gerel Simmons yfir leikinn, skoraði 9 stig í röð og alls 16 stig í leikhlutanum og heimamenn fóru inn í hálfleikinn með ágæta forystu 51-38.
Mikill barningur einkenndi 3ja leikhluta en Stjörnunni gekk illa að saxa verulega á forskot heimamanna. Simmons hélt áfram að skora og eftir þrist frá honum náðu heimamenn 18 stiga forystu um miðjan leikhlutann en gáfu svo aðeins eftir og Stjarnan kom með áhlaup. Leiddir af Tomsick náðu gestirnir að minnka muninn jafnt og þétt í fjórða leikhluta og komust í 2ja stiga leik þegar tæpar 5 mínútur voru enn eftir. Gegnumbrot frá Simmons og 5 stig frá Bilic komu muninum fljótlega aftur í 9 stig og frábær þristur frá Simmons kom stöðunni í 88-76 þegar tæpar 2 mínútur voru eftir og þá var leikurinn nánast unninn.
Gerel Simmons var frábær fyrir heimamenn í kvöld, skoraði 35 stig og skilaði sínu annarsstaðar á vellinum líka og endaði með 30 í framlag. Bilic skilaði 24 stigum og 7 fráköstum og Hannes, Axel og Jaka skiluðu góðum þristum þegar á þurfti að halda. Vörn heimamanna var góð lengst af en átti stundum í vandræðum með pick&roll sókn Stjörnunnar. Hjá gestunum var Nick Tomsick öflugur með 25 stig og Tómas Þórður fór hamförum í fráköstunum í fjarveru Hlyns Bæringssonar sem er rifbrotinn. Tommi reif niður 15 fráköst en var ekki að finna skotið sitt fyrir utan. Það er ljóst að Stjörnunni munar mikið um Hlyn, bæði í vörn og sókn.
Tindastólsmenn hafa vaxið mikið frá vonbrigðunum í fyrsta leiknum og spennandi verður að fylgjast með liðinu í vetur.
Umfjöllun, myndir, viðtöl / Hjalti Árna



