spot_img
HomeFréttirStólarnir kláruðu Blika í undarlegum leik í Síkinu

Stólarnir kláruðu Blika í undarlegum leik í Síkinu

Heimamenn í Tindastól unnu sigur á nýliðum Breiðabliks í nokkuð undarlegum körfuboltaleik í Subway deild karla í körfuknattleik í kvöld.

Leikurinn var undarlegur að því leyti að áhorfendur í Síkinu eru frekar vanir því að lið heimamanna sé varnarlið og byggi sigra sína á vellinum á sterkum og áköfum varnarleik. Það var ekki það sem boðið var upp á í kvöld fyrir utan síðustu 5 mínútur fyrri hálfleiks. Leikurinn var þó vissulega fjörugur og rúmlega 300 áhorfendur í Síkinu fengu töluvert fyrir sinn snúð.

Fjörið byrjaði nánast strax og Danero Thomas kom gestunum yfir með góðum þrist. Svo tók við 15-3 kafli heimamanna sem hittu ágætlega á meðan Blikar virkuðu vonlitlir. Það breyttist þó snögglega og 2 mínútum seinna voru gestirnir búnir að jafna í 15-15 og þá tók Árni Elmar að láta rigna yfir heimamenn. Hann setti þrjá þrista í röð og staðan skyndilega orðin 18-24 fyrir Blikum. Svo hófst smá moð en Viðar Ágústsson kom svo með svipaða syrpu fyrir Tindastól, setti 3 þrista í röð og Axel bætti svo einum við og Stólar leiddu 33-31 eftir fyrsta fjórðung. Í öðrum leikhluta var leikurinn í nokkru jafnvægi þar til staðan var 44-44 og Baldur tók leikhlé. Eftir leikhléið komu Tindastólsmenn inn með frábæra pressuvörn og gríðarlega ákefð á báðum endum vallarins. Þeir náðu að halda þessari baráttu alveg til hálfleiks og sýndu á þeim kafla hversu gott körfuboltalið þeir geta verið, stálu boltanum hvað eftir annað og létu allskyns körfum rigna í andlit Blika sem vissu ekki hvaðan stóð á sig veðrið. Á þessum síðustu 5 og hálfu mínútu hálfleiksins skoruðu Stólar 31 stig og fengu aðeins á sig 10 á móti, staðan 75-54 í hálfleik!

Ákafir aðdáendur Stóla á pöllunum reiknuðu nú með að leikurinn væri í höfn en því miður virtist sú tilfinning smitast rækilega í leikmenn sem komu inn í seinni hálfleikinn eins og syfjaðir kettlingar. Blikar gengu á lagið, söxuðu niður forskot heimamanna hægt og bítandi og voru búnir að koma muninum niður fyrir 10 stig fyrir lokaleikhlutann. Heimamenn virkuðu enn áhugalausir og þristur frá Sam Prescott kom muninum niður í 4 stig og ennþá 9 mínútur eftir af leiknum. Heimamenn rönkuðu þá aðeins við sér og náðu að auka forskotið aftur í 11 stig og svo 13 þegar rétt um 5:30 lifðu leiks. Þá duttu þeir aftur í svipað far og áður og hleyptu Blikunum inn í leikinn og lokamínúturnar urðu æsispennandi. Everage Richardsson minnkaði muninn í 2 stig þegar hálf mínúta var eftir en fékk tæknivillu strax eftir körfuna og Stólar kláruðu svo leikinn á vítalínunni en það stóð óþægilega tæpt að mati sérfræðinga í stúkunni.

Pétur Rúnar átti fínan leik fyrir heimamenn, skilaði 26 stigum og 7 stoðsendingum auk þess sem hann leiddi kaflann undir lok fyrri hálfleiks þegar Stólar náðu yfir 20 stiga forystu. Taiwo Badmus var drjúgur með 23 stig í viðbót en Javon Bess var ólíkur sjálfum sér að minnsta kosti sóknarlega. Hjá Blikum var Everage Richardsson frábær með 20 stig og 13 fráköst og alls settu 7 leikmenn Blika 10 stig eða meira á skýrsluna. Innkoma Árna Elmars var frábær og hann setti niður 5 þrista í sex tilraunum.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun, myndir, viðtal / Hjalti Árna

Fréttir
- Auglýsing -