spot_img
HomeFréttirStólarnir klárlega með besta heimavöllinn

Stólarnir klárlega með besta heimavöllinn

Örvar Þór Kristjánsson veltir sér upp úr 8-liða úrslitum Domino´s deildar karla sem hefjast í kvöld. Farið yfir málin með Örvari hér að neðan og sjáið hverja hann telur lifa af 8-liða úrslitin: 
 
KR-Grindavík 3-1
 
Mikil blóðtaka hjá báðum liðum að þeir Pavel og Ólafur Ólafs verða ekki með af fullum krafti, amk ekki í fyrstu leikjum seríunnar. Það veikir liðin en þó Grindvíkinga talsvert meira því breidd KR er óhugnaleg. Að mínu mati þá er Grindavík það lið sem á hvað mestan „séns“ í KR –liðið í 5 leikja seríu en það verður erfitt að sjá nokkurt lið vinna þessa KR maskínu. Þrátt fyrir trú mína á Sverri Þór og lærisveinum hans þá tel ég KR-inga bara einfaldlega of sterka og „bikar-klúðrið“ gerir þá enn ákveðnari í að vinna þann stóra. KR taka þessa seríu 3-1 og tapa í Röstinni í leik 2. Einvígi þeirra Michael Craion og Rodney Alexander verður stórskemmtilegt en þetta eru tveir af allra bestu leikmönnum deildarinnar. Spurningarmerkin í þessari seríu eru þeir bræður Ólafur og Þorleifur en ef þeir geta beitt sér að krafti þá eru allir vegir færir fyrir Grindavík en að sama skapi ef Pavel kemur inn með sín gæði þá á enginn séns í þetta KR-lið.
 
 
Haukar-Keflavík 2-3
 
Verð að viðurkenna það að ég er ótrúlega sáttur með árangur Hauka í vetur. Það er gaman að fá Hauka aftur svona sterka inn í karlaboltann en þar á bæ hafa menn farið í gegnum erfitt en um leið árangursríkt uppbyggingarferli. Þeir koma sterkir inn í fyrra en tapa þá reyndar í 8-liða úrslitum eftir jafna leiki við Njarðvík. Nú fá þeir reynsluboltana úr Keflavík í heimsókn sem þekkja ekkert nema velgengni í úrslitakeppninni. Lið Keflavíkur ef allir leikmenn liðsins eru heilir hafa gríðarlega sterkan og reyndan kjarna sem getur valdið usla. Damon Johnson hefur verið að ná fyrri styrk eftir erfið meiðsli og með hann í svipuðum gír og í haust þá er lið Keflavíkur til alls líklegt. Þessi sería er afar forvitnileg. Ég ætla að tippa á reynsluna, set Keflavík áfram 3-2. Það verður gaman að fylgjast með títtnefndum Damon Johnson (41árs) og einum af mínum uppáhalds leikmönnum Kára Jónssyni (17ára) en sá hefur spilað frábærlega í vetur.
 
 
Njarðvík-Stjarnan 3-2
 
Úff… þarna er vandi um að spá. Lið 4 & 5 og það segir sig sjálft að þetta verður jafnt! Tvö gríðarlega skemmtileg lið og Stjörnumenn hafa reynsluna af því á undanförnum árum að fara suður og henda liðum út úr úrslitakeppninni. Barátta bakvarðanna verður rosaleg en þeir Logi og Stefan gegn þeim Justin og Degi er ákaflega spennandi rimma. Auðvitað eru fleiri frábærir leikmenn sem vert verður að fylgjast með en þarna eru á ferðinni fjórir af allra bestu bakvörðum deildarinnar. Ég ætla ekki að spá Njarðvík ósigri en þessi sería verður grænum erfið en mínir menn taka þetta þó 3-2. Justin Shouse er mikill stríðsmaður og honum hungrar í Íslandsmeistaratitilinn en verður þó frá að hverfa í 8-liða úrslitum þetta árið. Hjá Njarðvík verður það Hjörtur Hrafn sem verður „x-faktorinn“ í seríunni auk þess sem ég hef trú á að „minni spámenn“ hjá UMFN eigi eftir að eiga mikilvægt framlag í seríunni.
 
 
Tindastóll-Þór Þorlákshöfn 3-1
 
Jæja Skagfirðingar, eruð þið klár í úrslitakeppni! Ég man vel eftir úrslitarimmu UMFN-Tindastóls árið 2001 og stemmingin fyrir Norðan var frábær. Nú eftir mögur ár þá eru Stólarnir komnir með eitt allra besta lið landsins og klárlega besta heimavöllinn. Í þessari seríu verður það heimavöllurinn sem ræður en ég sé ekki Stólana tapa þar leik, amk ekki gegn Þórsurum. Breidd Stólanna er mikil og þar eru mikil gæði út um allan völl. Benni Guðmunds á hrós skilið fyrir sitt framlag til körfuboltans í Þorlákshöfn og 7.sætið er að mínu mati frábær árangur m.v mannskap. Tómas vinur minn Tómasson hefur leikið við hvurn sinn fingur í vetur, brennir varla af skoti og þá hefur Grétar komið sterkur inn að undanförnu. Hinsvegar þá eru þeir að fara gegn gríðarlega sterku Tindastólsliði sem mun sigra þessa seríu 3-1. Darrel Lewis hefur spilað stórkostlega í vetur og þá er ég mjög spenntur að sjá hvað hinn stórskemmtilegi Pétur Rúnar gerir í úrslitakeppninni.
 
Úrslitakeppnin í Domino´s deild karla hefst í kvöld með eftirfarandi leikjum
19-03-2015 19:15 Úrvalsdeild karla KR   Grindavík DHL-höllin
19-03-2015 19:15 Úrvalsdeild karla Njarðvík   Stjarnan Njarðvík
 
Fréttir
- Auglýsing -