Keflavík hafði betur gegn Tindastóli í Blue höllinni í kvöld í frestuðum leik í Bónus deild karla, 98-81.
Eftir leikinn er Keflavík í 5. sæti deildarinnar með 18 stig á meðan Tindastóll er tveimur sigurleikjum fyrir ofan í 2. sætinu með 22 stig.
Heimamenn í Keflavík voru betri aðilinn frá fyrstu mínútu leiks kvöldsins. Spila flotta vörn og frákasta vel á upphafsmínútunum, en eftir fyrsta fjórðung er staðan 26-9 þeim í hag. Stólarnir sýndu smá lífsmark undir lok fyrri hálfleiksins og náðu að laga stöðuna. Munurinn þó enn 10 stig þegar liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik, 47-37.
Á þessari forystu má segja Keflavík hafi náð að hanga allan seinni hálfleikinn. Tindastóll nær aldrei að koma forystu heimamanna inn fyrir 10 stigin, en mest leiðir Keflavík með 21 stigi í upphafi þess fjórða. Niðurstaðan að lokum gífurlega sterkur sigur Keflavíkur, 98-81.
Stigahæstur fyrir Keflavík í kvöld var Egor Koulechov með 29 stig og Craig Moller bætti við 19 stigum.
Fyrir Tindastól voru stigahæstir Dedrick Basile með 23 stig og Davis Geks með 16 stig.
Keflavík: Egor Koulechov 29/8 fráköst, Craig Edward Moller 19/11 fráköst, Hilmar Pétursson 13, Mirza Bulic 12/12 fráköst/6 stoðsendingar, Remy Martin 11/8 stoðsendingar, Ólafur Björn Gunnlaugsson 5/4 fráköst, Jaka Brodnik 5, Halldór Garðar Hermannsson 4, Eyþór Lár Bárðarson 0, Frosti Sigurðarson 0, Jakob Máni Magnússon 0, Nikola Orelj 0.
Tindastóll: Dedrick Deon Basile 23/6 fráköst, Davis Geks 16/4 fráköst, Sigtryggur Arnar Björnsson 15, Ivan Gavrilovic 10, Adomas Drungilas 8/5 fráköst, Júlíus Orri Ágústsson 6/4 fráköst, Taiwo Hassan Badmus 3/5 fráköst/3 varin skot, Pétur Rúnar Birgisson 0, Ragnar Ágústsson 0/5 fráköst.
Myndir / SBS



