spot_img
HomeFréttirStólarnir héldu aftur Hellisbúunum

Stólarnir héldu aftur Hellisbúunum

Tindastóll hefur verið á fljúgandi siglingu það sem af er vetri og ætluðu þeir ekki að brotlenda í Hertz hellinum í kvöld. Fyrir leikinn milli ÍR og Tindastóls hafði ÍR aðeins unnið einn leik en Tindastóll aðeins tapað einum, og það framlengdum gegn ríkjandi Íslandsmeisturum á þeirra eigin heimavelli. Því var ljóst fyrir ÍR-inga að þetta yrði erfiður leikur þótt andstæðingurinn væri annar af nýliðum deildarinnar.
 
Bæði lið spiluðu mjög óagaðan sóknarleik í upphafi. Ótímabær skot og boltinn að ganga illa. ÍR létu eftir 3 sóknarfráköst í fyrsta leikhluta og virtust þeir ekkert ráða við andstæðinga sína þegar boltinn skoppaði af hringnum. Nýtingin var fín innan þriggja stiga línunnar en allt of mörg skot hjá báðum liðum fyrir utan drógu hana niður. 19-19 var staðan að loknum fyrstu 10 mínútum leiksins og hvorugt liðið að sýna neina alvöru tilburði í leiknum.
 
Töfraræðan frá Israel Martin hefur fyrir annan leikhluta virtist kveikja neista í nýliðunum til að spila boltanum vel í sókn og taka á því í vörn. ÍR-ingar hins vegar voru enn við sama heygarðshornið og misstu gestina frá sér í öðrum leikhluta. ÍR tapaði 4 boltum og létu eftir 5 sóknarfráköst til Tindastóls á þessum tíma. Tindastóll þakkað pent fyrir sig og jók muninn í 8 stig fyrir hálfleik. Skilvirkni gestanna var frábært í öðrum leikhluta með 1,49 stig per sókn og sóknarnýtingin framúrskarandi eða 69,3%.
 
Þrátt fyrir að virðast vera að spila mun betur en heimamenn tókst gestunum aldrei að hrista þá almennilega af sér í leiknum. Bæði lið hittu mjög vel í þriðja hluta, ÍR 9/18 og Tindastóll 10/20. Þó tókst Tindastóli að bæta í muninn og var hann orðinn 15 stig þegar síðast leikhluti hófst.
 
Líkt og Bjarni Magnússon, þjálfari ÍR sagði í leikslok þá virðist sem ÍR-ingar fari ekki að spila til sigurs fyrr en þeir eru komnir með bakið upp við vegg. Sú var staðan í upphafi fjórða og síðasta leikhluta og heimamenn bretta upp ermarnar og fara að spila körfubolta. Tindastóll missti að vísu tvo mikilvæga leikmenn út af með 5 villur á þessum tímapunkti, þá Dempsey og Viðar Ágústsson. Dempsey  hafði verið duglegur í fráköstunum og Viðar öflugur í vörninni. Eins manns dauði er annars brauð eins og einhver sagði og nýttu hellisbúarnir sér ástandið með því að sækja á fullu.
 
Fyrr en varir var leikurinn innan seilingar með 9 stiga mun og mínútu eftir af leiknum. Hörkuvörn og mikilvægir þristar komu svo ÍR-ingum í færi á að minnka muninn í tvö stig með nóg eftir af klukkunni en brenndu af tveimur sniðskotum undir körfunni í röð. Þá var svo gott sem úti um alla von og urðu ÍR-ingar að játa sig sigraða í fjórða skiptið í vetur, 86-92.
 
Tindastóll er nú með fjóra sigra og eitt tap á töflunni en ÍR aðeins unnið einn leik en tapað rest. 
 
Israel Martin, þjálfari Tindastóls sagði eftir leikinn að hann væri ánægður með framlag sinna manna, þeir hafi barist og haft fyrir hlutunum auk þess sem hann sagðist taka ofan fyrir ÍR-ingum sem hafi bitið vel frá sér þrátt fyrir að vera með takmarkaðan mannskap. Bjarni Magnússon, ÍR sagði að það hefði verið ákjósanlegt að stöðva siglingu Tindastóls í Hellinum en menn hafi gefið eftir á erfiðum tíma og ekki byrjað að spyrna á móti fyrr en orðið var of seint. KarfanTV birtir viðtöl við þessa tvo síðar.
 
Hjá Tindastól var Darrel Lewis atkvæðamestur með 18 stig.  Annars dreifðist stigaskor liðsins mjög vel og voru fjórir leikmenn með 10 stig eða meira. Hjá ÍR-ingum var Sveinbjörn Claessen mjög öflugur í leiknum með 24 stig og 8 fráköst. Matthías Orri bætti við 22 stigum og 8 stoðsendingum en hékk oft og tíðum of lengi á boltanum í sóknarleik ÍR.
Fréttir
- Auglýsing -