Stjörnuleikshátíðin fór fram með miklum skrúða í Íþróttamiðstöðinni í Grafarvogi um helgina. Þar áttust við flestir af bestu og efnilegustu leikmönnum landsins, bæði í karla og kvennaflokki. Háloftakonungar, stórskyttur, öldungar og frægðarflón börðust sín á milli við mikinn fögnuð áhorfenda. Skemmtuninn fyrir hinn almenna borgara og körfuknattleiksunnanda eins og mig var því óumflýjanleg.
Dagurinn byrjaði á stjörnuleik kvenna þar sem erkifjendurnir Ágúst Björgvinsson og Benedikt Guðmundsson leiddu sitt liðið hvort til keppni. Leikurinn varð aldrei jafn og hafði Benedikt greinilega fengið sínar stelpur í lið mér sér að ná fram hefndum gegn Ágústi eftir átök þeirra liða í deildinni þar sem Ágúst hafði betur í seinustu lotu. Leikurinn var þrátt fyrir stigamuninn mikil skemmtun og ótrúlega hraður. Heather Ezell fór á kostum í fyrri hálfleik og í seinni hálfleik tók Michele DeVault við en samanlagt skoruðu þær 61 stig í leiknum fyri Iceland Express liðið svokallaða. Leiknum lauk með öruggum sigri IE liðsins, 103-85. Í hálfleik höfðu stórskytturnar úr Iceland Express deild kvenna tekist á og í ljós kom að Kristi Smith úr Keflavík var sú heitasta á svæðinu.
Þegar leið á daginn bættist stöðugt í mannfjöldan sem heimsótti Íþróttamiðstöðina og var sá fjöldi líklega í hámarki þegar frægðarflónin eða glamúr-liðið tók á móti öldurðu landsliði Íslands. Sá leikur var hin mesta skemmtun og sérstaklega var gaman að fylgjast með Agli “Gillz” Einarssyni brjóta flestar reglur leiksins einungis með líkamlegum yfirburðum sínum á vellinum. Það dugði þó ekki til sigurs því landsliðskempurnar léku við hvern sinn fingur þrátt fyrir að etja kappi við mest 9 leikmenn glamúr-liðsins í einu. Landsliðið vann á endanum, 39-27, en taka skal fram að sá leikur var aðeins 2X8 mínútur og því ekki við landsliðsmennina að sakast þó þeir hafi aðeins skorað 39 stig.
Næsti dagskráliður var líklega sá sem flestir biðu spenntir eftir en Ólafur Ólafsson hafði látið stór orð falla í fjölmiðlum landsins og því spennandi að sjá hvort hann stæði undir orði. Þeir voru fimm sem reyndu fyrir sér í troðslukeppninni og fengu eina mínútu hver til þess að sýna fram á ágæti sitt. Það voru þeir John Davis og Ólafur Ólafsson sem komust í úrslitin og þar hafði sá fyrrnefndi betur , en með naumindum þó. Báðir reyndur þeir við metnaðarfullar troðslur í úrslitalotunni sem tókst ekki og það var því á lokasekúndunum sem John Davis tryggði sér troðslukongstitilinn með einu troðslu úrslitarimmunar sem heppnaðist. Það munaði þó sorglega litlu að báðir næðu að klára sínar troðslur sem hefðu líklega verið með þeim glæsilegri sem undirritaður hefur séð með egin augum.
Lokaliðurinn á þessari annars þéttpakkaðri dagskrá var stjörnuleikur Iceland Express deildar karla. Þar áttust við lið Guðjóns Skúlasonar og Sigurðar Ingimundarsonar. Eftir að hafa tekið þátt í nánast hverjum dagskrárlið dagsins voru þessir miklu menn líklega að niðurlotum komnir enda sátu þeir pollrólegir svo gott sem allan leikinn og nutu þess að sjá leikmennina leika listir sínar. Það sem stóð uppúr í þessum leik var líklega troðsla Harðar Axels Vilhjálmssonar sem var óneitanlega mjög lík frægri troðslu Tracy McGrady í stjörnuleik NBA árið 2002 þar sem hann gefur alley-oop sendingu á sjálfan sig af spjaldinu og treður með látum. Það var hins vegar Andre Dabney, leikmaður Hamars, sem þótti skara frammúr í leiknum og var valinn leikmaður leiksins. Hann sýndi oft og tíðum mjög skemmtilega takta sem minnti undirritaðan á And 1 mixtape sem hlýtur að hafa verið síðasta vinsæla VHS körfuboltaspólan.
Stjörnuleikur Iceland Express deildarinnar í ár var því hin mesta skemmtun og óhætt er að fullyrða að allir þeir sem létu sjá sig fengu eitthvað fyrir sinn snúð og það frítt í þokkabót. Ekki slæmt á þeim síðustu og bestu.. eða verstu.
Gísli Ólafsson