spot_img
HomeFréttirStjörnusigur í Garðabæ (Umfjöllun)

Stjörnusigur í Garðabæ (Umfjöllun)

 
Stjarnan tók á móti ÍR-ingum í Ásgarði í kvöld. Bæði lið höfðu fyrir leikinn verið í dálítilli lægð og var því hér gullið tækifæri til að rétta úr kútnum. Stjörnumenn höfðu tapað tveimur síðustu deildarleikjum sínum og Breiðhyltingar vermdu botnsæti deildarinnar, staða sem hlýtur að þykja óviðunandi hjá sigursælasta liðinu í sögu Íslandsmótsins. 
Liðin byrjuðu leikinn álíka sterkt. Marvin Valdimarsson skoraði fyrstu sjö stig heimamanna og fljótlega var staðan orðin 9-9. Þá tóku Garðbæingar aðeins við sér og náðu naumri forystu en ÍR-ingar voru þó aldrei langt undan. Fyrsti fjórðungur var mjög prúðmannlega leikinn og ef greinarhöfundi skjátlast ekki kom fyrsta villa leiksins þegar um 6 sekúndur voru eftir af fjórðungnum. Upp úr því innkasti barst boltinn til Ólafs Ingvasonar sem setti niður ágæta flautukörfu og staðan í lok fyrsta fjórðungs því 26-21, heimamönnum í vil.
 
Fátt markvert gerðist í öðrum leikhluta. Stjörnumenn settu í þriðja gír og byrjuðu hægt og örugglega að byggja upp forskot og ÍR-ingar áttu fá svör, þrátt fyrir ágætar tilraunir. Stjörnumenn spiluðu góðan bolta og höfðu 14 stiga forystu í hálfleik 47-33.
 
Það sama var uppi á teningnum í þriðja fjórðungi. Stjörnumenn héldu áfram að spila glimrandi bolta og höfðu lengi um og yfir 20 stiga forystu. Stjörnumenn keyrðu vel á gestina og Marvin Valdimarsson var sjóðheitur fyrir utan þriggja stiga línuna. Staðan í lok þriðja leikhluta var 71-52, heimamönnum í vil og stuðningsmenn Stjörnunnar virtust ansi vissir um að sigurinn væri í höfn.
 
Svo var þó ekki því gestirnir komu bandbrjálaðir til leiks í lokaleikhlutanum. Stjörnumenn virtust hafa gleymt hvernig körfubolti skal spilaður á milli leikhlutanna og gerðu nokkur slæm mistök auk þess sem hittnin var ekki til að hrópa húrra yfir. Þegar 4 mínútur voru eftir höfðu ÍR-ingar minnkað muninn í 7 stig og í stúkunni fór um Garðbæinga, enda hafa Stjörnumenn áður gloprað niður álíka forskoti á lokasprettinum. Þó varð ekkert af því í þetta skiptið og eftir gott áhlaup heimamanna tókst þeim að innbyrða góðan 89-76 sigur.
 
Marvin Valdimarsson var atkvæðamestur Stjörnumanna í kvöld með 30 stig og 10 fráköst og Jovan Zdravevski skoraði 28. Hjá ÍR var Kelly Biedler langbestur, en Biedler var með sannkallaða tröllatvennu, 30 stig og 21 frákast auk þess sem hann varði 7 skot. Eftir leikinn er Stjarnan í fjórða sæti Iceland Express deildarinnar með 10 stig á meðan ÍR er enn á botninum með einungis tvö.
 
Teitur Örlygsson var að vonum ánægður með sína menn eftir sigur kvöldsins en þó ekki með fjórða leikhlutann: “Já, þar vorum við sjálfum okkur verstir, hittum illa og hleyptum þeim allt of nálægt, en mér fannst þetta þó aldrei í hættu og er ánægður með stigin, næst eigum við svo leik á erfiðasta útivelli landsins á móti toppliðinu en við munum auðvitað gera okkar besta þar”.
 
Heildarskor:
 
Stjarnan: Marvin Valdimarsson 30/10 fráköst/3 varin skot, Jovan Zdravevski 26/8 fráköst/5 stoðsendingar, Justin Shouse 14/7 stoðsendingar/5 stolnir, Ólafur Aron Ingvason 5, Kjartan Atli Kjartansson 5, Guðjón Lárusson 4, Fannar Freyr Helgason 3/9 fráköst/6 varin skot, Daníel G. Guðmundsson 2, Dagur Kár Jónsson 0, Tómas Þórður Hilmarsson 0, Birgir Björn Pétursson 0, Sigurbjörn Ottó Björnsson 0.
 
ÍR: Kelly Biedler 30/21 fráköst/5 stolnir/7 varin skot, Nemanja Sovic 17/8 fráköst, Hjalti Friðriksson 9, Kristinn Jónasson 5/5 fráköst, Eiríkur Önundarson 4, Matic Ribic 4, Níels Dungal 3, Bjarni Valgeirsson 3, Ásgeir Örn Hlöðversson 1, Vilhjálmur Theodór Jónsson 0, Davíð Þór Fritzson 0, Vilhjálmur Steinarsson 0.
Ljósmynd/ BSB: Fannar Helgason var vígalegur með grímuna í Ásgarði í kvöld.
 
Umfjöllun: Elías Karl Guðmundsson
Fréttir
- Auglýsing -