Stjörnumenn tóku í kvöld á móti Þórsurum úr Þorlákshöfn í Domino’s deild karla. Fyrir leikinn voru bæði lið um miðja deild, og var því um mikilvæg stig að ræða í baráttunni um að tryggja sæti í úrslitakeppninni.
Þórsarar höfðu tögl og hagldir í fyrsta leikhluta, og virtist oft sem að gestirnir gætu ekki klikkað í skottilraunum sínum. Stjörnumenn áttu aftur á móti erfitt með að gera nokkuð af viti, og voru fljótlega byrjaðir að elta gestina. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 23-31, Þór í vil, en Mike Cook og Nemanja Sovic reyndust Garðbæingum erfiðir í fyrsta leikhluta.
Þórsarar héldu uppteknum hætti í öðrum leikhluta, allavega til að byrja með. Gestirnir gjörsamlega röðuðu niður körfum og Stjörnumenn virtust heillum horfnir. Þó má aldrei afskrifa Stjörnuliðið, en með góðri baráttu tókst heimamönnum að minnka forskot Þórsara niður í einungis fjögur stig í hálfleik, staðan 48-52 þegar liðin gengu til búningsklefa.
Seinni hálfleikur var mikil sýning. Eftir að Stjörnumönnum tókst að jafna undir lok þriðja leikhluta, 74-74, skiptust liðin á forystunni allan lokafjórðunginn. Það voru hins vegar þeir Fannar Freyr Helgason og Sigurður Dagur Sturluson sem skiptu sköpum fyrir heimamenn. Fannar skoraði gríðarlega mikilvæg stig fyrir heimamenn, og Sigurður Dagur spilaði frábæra vörn gegn Mike Cook, besta manni Þórsara. Með blöndu af framlagi þeirra Fannars og Dags, baráttu og jafnri stigaskorun tókst heimamönnum að landa frábærum tveggja stiga sigri, 97-95.
Justin Shouse skoraði 23 stig fyrir heimamenn og var þeirra stigahæstur. Junior Hairston og Dagur Kár Jónsson komu næstir með 20 stig hvor, en Hairston tók 11 fráköst að auki. Hjá gestunum voru Mike Cook og Nemanja Sovic bestir, en Cook skoraði 30 stig og Sovic 24.
Umfjöllun/ Elías Karl Guðmundsson



