22:39
{mosimage}
(Allan Fall að sækja að körfu Stjörnumanna)
Í kvöld mættust lið Stjörnunnar og Skallagríms í fyrstu umferð Iceland-Express deildar karla. Leikurinn fór fram í Ásgarði og var fyrsti leikur Stjörnumanna í efstu deild frá árinu 2002. Bæði lið hafa leikið vel á undirbúningstímabilinu og unnu Borgnesingar m.a. Greifamót Þórs á Akureyri en Stjarnan sigraði Valsmótið og lentu í öðru sæti á Reykjanesmótinu. Skallagrímur voru þó taldir líklegri til sigurs í kvöld. Jafnræði var með liðunum í fyrstu og mikil barátta einkenndi leikinn. Skallagrímur var þó skrefinu á undan fyrstu fimm mínúturnar og höfðu tveggja til þriggja stiga forystu lengst af en Stjarnan var þó aldrei langt undan. Enginn nýliðabragur var á leik Garðbæinga og greinilegt að Bragi Magnússon hefur haft góðan tíma til að undirbúa liðið fyrir átök vetrarins. Stjarnan endaði leikhlutann á góðum kafla og höfðu fjögurra stiga forystu að fjórðung loknum, 25-21.
Skallagrímur var ekki lengi að vinna upp forskotið í byrjun annars leikhluta. Fyrstu fjórar mínútur fjórðungsins voru liðin mjög jöfn og skiptust á eins stigs forystu. Nokkuð var um villur og fékk Fannar Helgason fljótlega sína þriðju villu í liði Stjörnunnar. Þegar um fjórar mínútur voru eftir kom annar góður kafli hjá Stjörnunni og undir forystu Steven Thomas og Dimitar Karadzovski náðu þeir tíu stiga forystu sem þeir héldu nokkurn veginn út leikhlutann. Staðan 48-40 í hálfleik í annars ágætum leik.
{mosimage}
(Fannar Helgason að reyna fljúga yfir Milojica Zekovic)
Skallagrímsmenn komu mjög vel stemmdir í 3.leikhluta og söxuðu fljótt á forskot Stjörnumanna. Vörn þeirra var sterk og Stjörnumenn áttu erfitt með að hemja þá í sókninni. Fyrr en varði var staðan orðin 55-57 fyrir Borgfirðinga og nú fyrst virtist reynsluleysi Garðbæinga ætla að segja til sín. Skallagrímsmenn höfðu “momentum” sér í hag og Darrell Flake var sterkur inni í teig. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 60-61 Skallagrím í vil og allt benti til að fjórði leikhluti yrði spennandi.
Skallagrímsmenn voru ávallt skrefinu á undan fyrstu mínútur fjórðungsins og voru komnir í 63-67 forystu þegar sjö mínútur voru til leiksloka. En þá brast eitthvað. Stjörnumenn hreinlega fóru á kostum næstu þrjár, fjórar mínútur og skoruðu 18 stig gegn einungis einu stigi Borgfirðinga og staðan allt í einu orðin 81-68, Stjörnunni í vil. Stjörnumenn fóru á kostum og kafsigldu Skallana á þessum sjö mínútum og þrátt fyrir drengilegar tilraunir Skallagríms til að koma sér inn í leikinn á ný þá voru það nýliðar Stjörnunnar sem báru sigur úr býtum og sigruðu 85-72. Nokkuð óvænt úrslit en ljóst er að Stjörnumenn eiga vel heima á meðal þeirra bestu.
{mosimage}
(Milojica Zekovic)
Dimitar Karadzovski var stigahæstur Stjörnumanna, en hann skoraði 22 stig gegn sínum gömlu félögum. Einnig fór Steven Thomas mikinn með góða tvennu, 20 stig og 13 fráköst og Kjartan Kjartansson sýndi fín tilþrif og endaði leikinn með 17 stig, þar af 5 þriggja stiga körfur.
Darrell Flake var stigahæstur í liði Skallagríms með 21 stig en hann tók einnig 12 fráköst.
myndir: [email protected]
texti: Elías Karl – [email protected]



