Stjörnumenn tóku á móti Skallagrímsmönnum í þriðju umferð Dominsdeildar karla í kvöld. Stjörnumenn voru án stiga eftir fyrstu tvær umferðirnar en Skallagrímsmenn nældu sér í tvö stig á heimavelli í síðustu umferð. Þess má geta að heimamenn spiluðu kanalausir í kvöld en þeir sendu útlending sinn heim fyrr í vikunni.
Fyrsti leikhluti byrjaði af krafti og bæði lið voru að landa sóknarfráköstum. Jafnræði var með liðum í byrjun leiks en Stjörnumenn komust í 11-6 með góðum þristi frá Shouse. Þeir bláklæddu stigu aðeins á bensíngjöfina þegar líða tók á fjórðunginn og komust í 20-11. Shouse var þá kominn með 12 stig og virtist óstöðvandi. Páll Axel náði að svara fyrir gestina og virtist vera eini maðurinn í liði Skalla sem gat sett boltann ofan í. Staðan eftir fyrsta fjórðung var 26-19 heimamönnum í vil og Stjörnumenn skrefinu á undan.
Gestirnir grýttu boltanum ítrekað útaf í byrjun annars leikhluta en heimamenn refsuðu fyrir það og juku forskot sitt lítið eitt, 30-22. Um miðbik leikhlutans fóru Garðbæingar í svæðisvörn sem virtist slá piltunum frá höfuðstað Vesturlands skelk í bringu. Garðbæingar náðu ágætistökum á leiknum og komust í 40-28 á meðan Skallarnir virtust andlausir og spiluðu tilviljunarkenndan sóknarleik. Shouse virtist skora að vild og setti körfur í öllum þeim litum er kenndir eru við regnbogann. Hálfleikstölur voru 44-31 og Shouse kominn með 17 stig og Marvin 11. Í liði gestanna var Paxel atkvæðamestur með 10 stig en Orri kom næstur með 7. Því má bæta við að Mychal Green var einungis með 4 stig í hálfleik fyrir Skallagrímsmenn en hann virtist vera alveg týndur.
Shouse hélt áfram að vera í sérflokki í þriðja leikhluta og Stjörnumenn virtust vera að stinga af í stöðunni 54-36. Um miðbik þriðja leikhluta ákváðu þó Borgnesingar að vakna til lífsins og Egill Egilsson kom sterkur inn af bekknum fyrir gestina og kom stöðunni í 59-46. Allt annað var að sjá leik Skallanna og andleysið sem einkenndi leik þeirra í fyrri hálfleik virtist horfið. Að loknum þriðja leikhluta var staðan 62-52 og allt stefndi í spennandi lokafjórðung.
Síðasti fjórðungurinn byrjaði með þristasýningu þar sem Davíð Guðmundsson setti tvo fallega þrista fyrir gestina en Kjartan Atli svaraði um hæl fyrir Garðbæinga. Í stöðunni 67-60 virtist púðrið vera búið hjá Borgnesingum og eftir nokkrar klaufalegar sóknir í röð og auðveldar körfur hjá heimamönnum voru Stjörnumenn komnir með 13 stiga forskot, 73-60. Shouse hélt áfram að skora að vild og rak síðasta naglann í kistu gestanna þegar hann kom heimamönnum í 80-63 með fallegri körfu. Lokatölur í leiknum voru 84-68, heimamönnum í vil og fyrstu stig Stjörnumanna staðreynd.
Justin Shouse var hreint út sagt magnaður í liði heimamann í kvöld og setti 32 stig og gaf 10 stoðsendingar. Dagur Kár kom þar næstur og skilaði 15 stigum en pilturinn spilaði ljómandi í seinni hálfleik. Fannar Helgason átti einnig fínan leik en hann skoraði 14 stig ásamt því að hirða 8 fráköst. í liði gestanna var Páll Axel atkvæðamestur en hann skoraði 16 stig. Egill Egilsson kom þar næstur með 11 stig og 6 fráköst. Mychal Green skoraði einungis 7 stig fyrir Skallagrímsmenn en hans framlag þarf að vera mun meira ætli Borgnesingar sér að landa fleiri sigrum í vetur.
Umfjöllun: ÞÖV



