spot_img
HomeFréttirStjörnumenn sterkari á lokasprettinum

Stjörnumenn sterkari á lokasprettinum

Stjörnumenn tóku í kvöld á móti Þór frá Þorlákshöfn í Domino’s deild karla. Fyrir leikinn voru liðin jöfn að stigum í deildinni, ásamt þremur öðrum liðum með átta stig, og var því von á jöfnum leik, og sú varð raunin.
 
 
Fyrsti fjórðungur var nokkuð jafn til að byrja með. Stjörnumenn höfðu forystuna lengst af, en Þórsarar voru aldrei langt undan, og börðust fyrir hverjum bolta. Stjörnumönnum tókst þó undir lok fjórðungsins að slíta sig örlítið frá gestunum, og eftir góðar körfur frá Justin Shouse höfðu heimamenn átta stiga forskot eftir einn leikhluta, 26-18.
 
Stjörnumenn héldu nokkurra stiga forskoti í öðrum leikhluta, en Þórsarar börðust eins og áður fyrir sínu og náðu heimamenn aldrei að hrista baráttuglaða gestina af sér. Reyndar var baráttan allsráðandi undir lok fyrri hálfleiks, en hvorugt liðið sýndi mjög góð tilþrif. Fór svo að í hálfleik leiddu heimamenn með tveimur stigum, 41-39, og nóg eftir. Þegar hér var komið við sögu hafði Justin Shouse skorað 12 stig fyrir Stjörnuna, og Marvin Valdimarsson 10. Vincent Sanford var með 15 stig fyrir gestina.
 
Þórsarar komu til baka úr leikhléinu talsvert sterkari, og náðu upp mikilli stemmingu í sínum röðum. Boltinn gekk vel á milli leikmanna, og sóknarleikurinn leit talsvert betur út en í upphafi leiks. Stjörnumenn náðu þó að halda í við Þórsara, en litu oft ansi illa út og virtust vera ráðvilltir framan af þriðja leikhluta. Þeim tókst þó að halda Þórsurum innan seilingar og fyrir lokaleikhlutann höfðu gestirnir þriggja stiga forystu, 60-63.
 
Í upphafi lokafjórðungsins virtist sem að Þórsarar myndu sigla sigrinum heim í Þorlákshöfn. Þeir komust mest í átta stiga forystu, og virtust í miklu stuði, á meðan fátt gekk upp hjá Garðbæingum. Körfubolti er hins vegar íþrótt áhlaupa, og með einu góðu áhlaupi þegar um þrjár mínútur voru eftir komust Garðbæingar yfir í leiknum. Eftir þetta fengu heimamenn blóð á tennurnar og tókst að sigla heim sex stiga sigri, 85-79, í leik sem bauð ekki oft upp á fallegan körfubolta.
 
Hjá Stjörnunni var Justin Shouse atkvæðamestur með 19 stig, og Marvin Valdimarsson bætti við 18. Hjá Þórsurum skoraði Vincent Sanford 23 stig.
Eftir sigurinn eru Stjörnumenn einir í þriðja sæti deildarinnar með 10 stig, en önnur lið eiga þó leik til góða.
 
  
Umfjöllun/ EKG
Mynd úr safni/ Justin Shouse var stigahæstur Stjörnumanna í kvöld.
Fréttir
- Auglýsing -