spot_img
HomeFréttirStjörnumenn saltaðir í Síkinu

Stjörnumenn saltaðir í Síkinu

 

Stjörnumenn mættu í Síkið í kvöld til þess að etja kappi við heimamenn í Tindastól. Bæði lið unnu góða sigra í síðustu umferð, Stjarnan sigraði Þór frá Þorlákshöfn á heimavelli á meðan að Stólarnir sóttu auðveldan sigur í Stykkishólm. Eftir jafnan fyrsta leikhluta þá tóku Tindastólsmenn öll völd á vellinum, sigruðu næstu tvo fjórðunga sannfærandi og sigldu þægilegum sigri í höfn 92 – 69. Pétur Rúnar Birgisson var atkvæðamestur Sauðkrækinga með 21 stig, 13 fráköst og 4 stoðsendingar en hjá stjörnunni var Anthony Odunsi með 22 stig og 9 fráköst.

 

 

Ráðaleysi

Ráðaleysi Stjörnunnar sóknarlega í þessum leik var algert, ótrúlegustu leikmenn tóku ótímabær skot og þess á milli þá var gríðarlega mikið um ómarkvisst hnoð í áttina að körfunni. Í vörninni tók ekki mikið betra við, Stjörnumenn gerðu ágætlega í 2-3 varnir með svæðisvörn sem kom Tindastólsmönnum á óvart, þeir leystu það þó fljótlega og áttu leikinn frá a-ö eftir fyrsta leikhlutann.

 

Meiðsli

Það setti smá skugga á leikinn að það vantaði lykilmenn í bæði lið, það munaði þó sennilega mest um þá Chris Caird hjá Tindastóli og Justin Shouse hjá Stjörnunni. Vonandi fyrir allt kjörfuboltaáhugafólk þá koma þessir frábæru leikmenn til baka sem fyrst. Tindastólsmenn leystu þó sín meiðslavandræði mikið betur í dag.

 

Leikstjórnandavandi

Eins og fyrr sagði þá vantaði Justin Shouse í lið Stjörnunnar í dag og það sást vel, það er eiginlega enginn annar leikmaður í liðinu sem getur kallað sig leikstjórnanda og sást það meðal annars á því að þeir töpuðu 20 boltum. Tómas Heiðar er skytta, Arnþór líka og Odunsi er ekki nægjanlega öruggur á boltanum til þess að spila leikstjórnendahlutverkið sem skyldi. Magnús Bjarki hefur verið að koma inn en þetta hlutverk er honum enn sem komið er ofviða. Stjörnumenn þurfa að leysa þetta leikstjórnandavandamál ef þeir ætla sér einhverja hluti í vor.

 

Maður leiksins

Að öðrum Tindastólsmönnum ólöstuðum þá var Pétur Rúnar Birgisson besti maður vallarins í kvöld, hann stýrði leik heimamanna með miklum myndarbrag, spilað flotta vörn og það sem meira er, þá lét hann sig vaða inn í teiginn á milli trjánna til þess að sækja mikilvæg fráköst. Pétur endaði með heil 13 fráköst ásamt því að stela 5 boltum.

 

Tölfræði leiksins

Myndasafn

Umfjöllun / Sigurður Orri Kristjánsson

Myndir / Hjalti Árna

Fréttir
- Auglýsing -