spot_img
HomeFréttirStjörnumenn mættir til leiks: Háspenna í Ásgarði

Stjörnumenn mættir til leiks: Háspenna í Ásgarði

 
Eftir æsispennandi lokasprett tókst Stjörnunni að landa sigri 107-105 gegn KR og jafna úrslitaeinvígi liðanna í Iceland Express deild karla. Staðan er 1-1 í einvíginu og þriðji leikurinn fer fram í DHL-Höllinni á sunnudag. Liðin skiptust 15 sinnum á forystunni í leiknum og síðasta mínúta leiksins var vægt til orða tekið afar hjartastyrkjandi. Fyrsti sigur Stjörnunnar í úrslitum Íslandsmótsins í úrvalsdeild, nýr kafli í sögu deildarinnar sem hefur rokið upp í blaðsíðutali síðan Teitur Örlygsson tók við liðinu.
Garðbæingar hafa nú kvatt niður allar raddir um sópinn margumtalaða og ljóst að heimavöllurinn er þyngdar sinnar virði í gulli í þessari rimmu liðanna. Jovan Zdravevski og Justin Shouse fóru fyrir Stjörnunni í kvöld en sex leikmenn liðsins gerðu 10 stig eða meira. Marcus Walker og Brynjar Þór Björnsson fóru á kostum í liði KR og skoruðu saman 66 af 105 stigum KR í leiknum.
 
Heimamenn í Stjörnunni voru ferskari í upphafi leiks á meðan KR-ingar sem röðuðu niður þristum í fyrsta leiknum mættu með tvo þrista í upphafi sem hittu ekki hringinn. Gestirnir áttu þó eftir að hrista það af sér. Eftir rúmlega sjö mínútna leik í fyrsta leikhluta fékk Finnur Atli Magnússon sína þriðju villu í liði KR og heimamenn leiddu 18-12. Garðbæingar héldu uppteknum hætti út leikhlutann og leiddu 26-20 að honum loknum.
 
Jovan Zdravevski var líflegur í liði heimamanna frá fyrstu mínútu, beittur í sókninni og í almennum kyndingum en hjá KR var Marcus Walker kominn með 7 stig. Garðbæingum til yndisauka var Fannar Freyr Helgason kominn með sjö stig í fyrsta leikhluta og búinn að stimpla sig inn í einvígið en hann náði aldrei taktinum í fyrsta leik.
 
Marcus Walker var sjóðandi í liði KR í upphafi annars leikhluta, hann gerði sjö fyrstu stig KR í leikhlutanum áður en Brynjar Þór Björnsson valsaði á vítalínuna og jafnaði leikinn í 29-29. Marcus kom KR svo yfir 29-32 með þrist og búinn að gera 10 stig á tæpum þremur mínútum!
 
Þriggja stiga keppnin var hafin, Jovan og Brynjar Þór tóku þátt og Kjartan Atli Kjartansson lét ekki skilja sig útundan og jafnaði fyrir heimamenn 47-47. Þegar rúm mínúta var til hálfleiks fékk Brynjar Þór dæmda á sig óíþróttamannslega villu fyrir að reka fótinn í Justin Shouse þegar hann veitti honum eftirför. Shouse setti niður vítin og Garðbæingar leiddu síðan 54-52 í hálfleik.

 
Marcus Walker var frábær í öðrum leikhluta, gerði 17 stig í leikhlutanum og var með 24 stig í hálfleik. Hreggviður Magnússon var með 7 stig en hjá Stjörnunni hafði Jovan sig mest í frammi með 17 stig í hálfleik og Justin Shouse var með 10. Töluvert var flautað í fyrri hálfleik eða alls 27 villur og nokkri komnir á hættusvæði og þurftu að hafa varann á í síðari hálfleik.
 
Justin Shouse hrinti þriðja leikhluta af stað með þriggja stiga körfu, 57-52 og aðrir fylgdu í kjölfarið. Marvin bætti við einum og Brynjar Þór Björnsson minnkaði muninn í 60-58 með þrist. Þriggja stiga keppnin var í blússandi gangi og menn virtust á köflum ekki hafa nokkurn áhuga á því að sækja að körfunni. Daníel Guðmundsson kom Garðbæingum í 65-59 með þrist, Brynjar Þór svaraði í sömu mynt. Daníel jafnaði fyrir Stjörnuna 68-68 með þrist og Brynjar Þór svaraði í sömu mynt. Maðurinn var með sjálfskipaðan andmælarétt á hverju skoruðu stigi heimamanna og lék við hvern sinn fingur í þriðja leikhluta enda Brynjar í fantaformi um þessar mundir og búinn að gera samtals 60 stig í tveimur fyrstu leikjum liðanna.
 
Nokkuð hitnaði í kolunum í síðari hálfleik, Fannar Freyr Helgason fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu fyrir að slá í andlit Hreggviðs Magnússonar og víða sáust nokkrir aðrir pústrar. Brynjar Þór hélt KR við efnið á meðan Marcus Walker var nokkuð rólegri í þriðja leikhluta þar sem hann gerði aðeins þrjú stig en Stjarnan leiddi 81-79 að leikhlutanum loknum sem fór 27-27.
 
Byssukúlan Walker var kominn í gang að nýju í fjórða leikhluta, kappinn gerði fimm stig í röð fyrir KR snemma í leikhlutanum og gestirnir náðu 82-84 forystu. Í garð gekk magnaður fjórði leikhluti, liðin skiptust á forystunni og hitastigið fór hækkandi með hverri sekúndunni.
 
Marcus Walker fékk sína þriðju villu þegar hann braut á Justin Shouse í þriggja stiga skoti, Walker mótmælti dómnum og fékk tæknivíti að launum og þar með sína fjórðu villu. Shouse hélt á línuna og setti niður öll fimm skotin og kom Stjörnunni í 92-88. Skömmu síðar lenti Jovan risavöxnum þrist og kom Stjörnunni í 97-92. Jovan fékk sína fimmtu villu andartökum síðar og varð frá að víkja með 25 stig þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir af leiknum.
 
KR-ingar náðu góðri rispu um leið og Jovan fór á bekkinn, Pavel Ermolinskij setti sterkan þrist og jafnaði metin í 97-97. Daníel Guðni Guðmundsson kom Stjörnunni í 104-99 þegar mínúta var til leiksloka er hann bauð upp á regnbogakörfu (floater) yfir varnarmenn KR. Glæsileg tilþrif hjá bakverðinum knáa. Brynjar Þór Björnsson mótmælti þessari forystu Garðbæinga þegar 55 sekúndur voru eftir, smellti niður rosalegum þrist eins og honum einum er lagið og staðan 104-102. Þegar 42 sekúndur voru eftir af leiknum fékk Marcus Walker sína fimmtu villu í liði KR og varð frá að víkja.
 
Jón Orri Kristjánsson hélt á vítalínuna í stöðunni 106-102 þegar 33 sekúndur voru til leiksloka. Vítin vildu ekki niður en Brynjar Þór Björnsson náði sóknarfrákastinu og skoraði fyrir KR. Heimamenn héldu í sókn og KR sendi Fannar Helgason á vítalínuna þegar 27 sekúndur voru eftir. Fannar misnotaði bæði vítin og þegar 16 sekúndur voru eftir braut Daníel Guðni á Brynjari Þór sem setti niður annað vítið og staðan 106-105 Stjörnuna í vil og spennan í algleymingi.
 
Renato Lindmets fór á vítalínuna þegar 11,5 sekúndur lifði leiks og kom Stjörnunni í 107-105. KR-ingar héldu í sókn þar sem Pavel Ermolinskij fékk fínt þriggja stiga skot sem geigaði. Tíminn rann út en dómarar leiksins mátu það sem svo að 0,2 sekúndur væru eftir og þá átti KR innkast undir körfu Stjörnunnar þar sem heimamenn höfðu blakað boltanum útaf í lokin. Innkastið reyndist há sending á Pavel en skotið hafðist ekki og Garðbæingar fögnuðu sigri 107-105 í mögnuðum leik þar sem bæði lið skoruðu 20 stig eða meira í hverjum einasta leikhluta!
 
Nokkuð hefur verið rætt um dýpt KR-inga en að þessu sinni voru það Brynjar Þór og Marcus Walker sem báru uppi leik röndóttra sem fengu aðeins 9 stig af bekknum sínum á meðan Stjarnan fékk 15.
 
Jovan og Justin voru sterkustu menn Stjörnunnar í kvöld en Renato Lindmets var erfiður í teignum og þá skipti Garðbæinga miklu máli að Marvin, Daníel og Fannar Freyr voru allir að leggja í púkkið.
 
Þriðji leikur liðanna er svo í DHL-Höllinni næsta sunnudag og ekki úr vegi að fylgjast grannt með heimasíðum liðanna til þess að tryggja sér örugglega miða á leik þrjú.
 
Þá var gaman að sjá hvernig Garðbæingar svöruðu kalli sinna manna en stuðningsmenn blárra höfðu verið gagnrýndir fyrir að mæta illa á fyrsta leikinn í seríunni en bættu vel úr því í kvöld. Ekki þarf að fjölyrða um stuðningsmenn KR-inga, alltaf gaman af þeim í úrslitakeppninni og styðja vel við bakið á sínum mönnum.
 
Heildarskor:
 
Stjarnan: Jovan Zdravevski 25/8 fráköst/5 stoðsendingar, Justin Shouse 22/5 fráköst/6 stoðsendingar, Renato Lindmets 19/7 fráköst/6 stoðsendingar, Marvin Valdimarsson 15/5 fráköst, Daníel G. Guðmundsson 11, Fannar Freyr Helgason 10, Kjartan Atli Kjartansson 3, Guðjón Lárusson 2, Ólafur Aron Ingvason 0, Dagur Kár Jónsson 0, Tómas Þórður Hilmarsson 0, Christopher Sófus Cannon 0.
 
KR: Marcus Walker 34/6 stoðsendingar, Brynjar Þór Björnsson 32, Finnur Atli Magnússon 13/7 fráköst, Hreggviður Magnússon 9/4 fráköst, Pavel Ermolinskij 8/14 fráköst/6 stoðsendingar, Jón Orri Kristjánsson 6/6 fráköst, Ágúst Angantýsson 3, Skarphéðinn Freyr Ingason 0, Ólafur Már Ægisson 0, Matthías Orri Sigurðarson 0, Fannar Ólafsson 0, Páll Fannar Helgason 0.
 
Byrjunarliðin:
 
Stjarnan: Justin Shouse, Daníel G. Guðmundsson, Marvin Valdimarsson, Jovan Zdravevski og Renato Lindmets.
 
KR: Pavel Ermolinskij, Marcus Walker, Brynjar Þór Björnsson, Hreggviður Magnússon og Finnur Atli Magnússon.
 
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson og Björgvin Rúnarsson.
 
Ljósmyndir/ Tomasz Kolodziejski [email protected]
 
Umfjöllun/ Jón Björn Ólafsson[email protected]
Fréttir
- Auglýsing -